Biðja almenning um aðstoð

AFP

Aðra hverja mínútu er kynferðisbrot tilkynnt til lögreglunnar í ríkjum Evrópusambandsins. Nauðganir og annað kynferðislegt ofbeldi. Allir geta orðið þolendur kynferðislegs ofbeldis en yfirleitt eru það konur og börn sem verða fyrir slíku ofbeldi, segir í tilkynningu frá Europol í morgun.

Til þess að varpa kastljósinu að slíkum ofbeldisverkum er Europol að setja á laggirnar árveknisátak í 18 löndum Evrópu þar sem fólk er beðið um að aðstoða lögregluna við að hafa uppi á hættulegustu kynferðisglæpamönnum álfunnar. 

Um er að ræða ákall á netinu og tekur lögreglan í Danmörku, Belgíu, Bretlandi, Búlgaríu, Frakklandi, Ítalíu, Hollandi, Króatíu, Kýpur, Lettlandi, Litháen, Lúxemborg, Möltu, Póllandi, Rúmeníu, Svíþjóð, Spáni og Þýskalandi þátt. 

Bent er á 18 grunaða eða dæmda níðinga sem eru á flótta á vef Europol. Í fjórar vikur mun lögreglan dreifa myndum af þeim á netinu og samfélagsmiðlum. 

mbl.is