Lýðræðið stærra en stolt nokkurs manns

Michelle Obama.
Michelle Obama. AFP

Michella Obama, fyrrverandi forsetafrú Bandaríkjanna, sagði í færslu sinni á Instagram í gær að lýðræðið væri stærra en stolt nokkurs einstaklings. 

„Þessa vikuna hef ég verið að hugsa mikið um hvar ég var fyrir fjórum árum,“ skrifaði Obama og bætti við að hún hafi verið sár og orðið fyrir vonbrigðum eftir að Hillary Clinton laut í lægra haldi gegn Donald Trump í forsetakosningunum 2016. 

„En atkvæðin höfðu verið talin og Donald Trump hafði unnið. Bandaríska þjóðin hafði talað. Og ein stærsta ábyrgð forsetans er að hlusta á þjóðina,“ skrifaði Obama. 

Hún segir að hún og eiginmaður hennar Barack hafi gert það sem rétt var, boðið kjörnum forseta, Trump, og ráðgjöfum hans í Hvíta húsið, útbúið skýrslur og veitt ráðgjöf. 

„Ég verð að viðurkenna og segja að ekkert af þessu var auðvelt fyrir mig. Donald Trump hafði dreift rasískum lygum um eiginmann minn sem hafði stofnað fjölskyldu minni í hættu. Það var ekki eitthvað sem ég var reiðubúin að fyrirgefa. En ég vissi, að fyrir landið okkar yrði ég að finna styrkinn og þroskann til að geyma reiðina.“

„Svo ég bauð Melaniu Trump velkomna í Hvíta húsið og ræddi við hana um reynslu mína, svaraði öllum spurningum hennar,“ skrifaði Obama. „Ég vissi að þetta væri það sem var rétt að gera – því lýðræðið okkar er stærra en stolt nokkurs manns.“

Obama hvatti því næst þjóðina alla, „sérstaklega leiðtoga hennar, til að heiðra ferli kosninganna og sinna sínu hlutverki í að tryggja örugg og friðsamleg valdaskipti“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert