Þingmenn gagnrýndu Zuckerberg og Dorsey

Samsett mynd af Mark Zuckerberg og Jack Dorsey.
Samsett mynd af Mark Zuckerberg og Jack Dorsey. AFP

Facebook og Twitter vörðu aðgerðir sínar gegn misvísandi upplýsingum í kringum bandarísku forsetakosningarnar á hitafundi í bandaríska þinginu.

Einn öldungadeildarþingmaður gagnrýndi samfélagsmiðlana fyrir að vera „endanlegir ritstjórar“ pólitískra frétta.

Mark Zuckerberg, forstjóri Facebook, og Jack Dorsey, forstjóri Twitter, sátu fyrir svörum rafrænt á nefndarfundi, sem var sá annar sinnar tegundar á innan við mánuði. Þingmenn, bæði frá hægri og vinstri væng stjórnmálanna, gagnrýndu forstjórana fyrir meðhöndlun sína á pólitísku efni meðan á forsetakosningunum stóð.

Lindsey Graham á fundinum í dag.
Lindsey Graham á fundinum í dag. AFP

Þörf á nýrri reglugerð

Lindsey Graham, öldungadeildarþingmaður repúblikana, formaður dómsmálanefndar þingsins, sagði þörf á nýrri reglugerð til að tryggja að samfélagsmiðlarisarnir beri ábyrgð á ákvörðunum sínum um að fjarlæga efni, sía það, eða leyfa því að vera áfram á síðunum.

„Það lítur út fyrir að þið séuð hinir endanlegu ritstjórar,“ sagði Graham í upphafsræðu sinni. Þar gagnrýndi hann ákvörðun beggja miðla um að takmarka dreifingu á grein New York Post þar sem því var haldið fram að brögð hafi verið í tafli hjá syni Joe Biden, verðandi forseta Bandaríkjanna, meðan á kosningabaráttunni stóð.

„Þegar fyrirtækin ykkar hafa álíka völd og ríkisstjórnir og mun meiri völd en hefðbundnir fjölmiðlar þá verður eitthvað undan að láta.“

Hann sagði að lög sem kallast „Grein 230“, sem veita vefsíðum undanþágu vegna efnis sem aðrir setja á síðurnar, þurfi að breytast.

Richard Blumenthal.
Richard Blumenthal. AFP

Dreifði „andstyggilegum áróðri“

Richard Blumenthal, öldungadeildarþingmaður demókrata, óskaði einnig eftir breytingum á sömu lagagrein. Hann gagnrýndi fyrirtækin jafnframt fyrir óviðunandi viðbrögð gegn röngum pólitískum skilaboðum frá forsetanum Donald Trump. „Forsetinn hefur notað gjallarhornið sitt til að dreifa andstyggilegum áróðri í tilraun sinni til að snúa við vilja kjósenda,“ sagði Blumenthal.

Mark Zuckerberg er hann sat fyrir svörum.
Mark Zuckerberg er hann sat fyrir svörum. AFP

Vilja fara varlega í breytingar

Dorsey og Zuckerberg sögðust báðir vera opnir fyrir breytingum á „Grein 230“ en vöruðu við því að ekki megi líta á Facebook eða Twitter sem „útgefendur“ eða hefðbundna fjölmiðla.

„Við verðum að fara mjög varlega í allar breytingar [...] vegna þess að það að fara í eina átt getur útilokað nýja samkeppnisaðila og ný sprotafyrirtæki,“ sagði Dorsey.

Báðir vörðu þeir aðgerðir sínar til að koma í veg fyrir útbreiðslu skaðlegra og misvísandi skilaboða meðan á kosningabaráttunni stóð. „Við efldum aðgerðir okkar gegn herskáum aðilum, samsærishópum og öðrum hópum til að reyna að koma í veg fyrir að þeir notuðu okkar vettvang til að skipuleggja ofbeldi eða ókyrrð að loknum kosningunum,“ sagði Zuckerberg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert