Framkvæmdastjóri WHO bendlaður við átök í Eþíópíu

Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO).
Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). AFP

Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO), hefur verið sakaður um að liðsinna eþíópíska þjóðarbrotinu sem kennir sig við Tigraya-hérað í norðurhluta landsins. Tigrayar hafa mátt þola árásir þarlendra stjórnvalda undanfarna daga.

Tigrayar eru sagðir reyna að grafa undan eþíópískum stjórnvöldum og því hefur forsætisráðherra landsins, Abiy Ahmed, sagst vilja steypa flokki þeirra (TPLF) af valdastóli í héraðinu. Ghebreyesus er af þjóðarbroti Tigraya og er líklega langsamlega þekktasti Tigrayinn, enda hefur hann verið í fréttum undanfarið ár vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

Sahle-Work Zewde, forseti Eþíópíu (til vinstri), og Abiy Ahmed, forsætisráðherra …
Sahle-Work Zewde, forseti Eþíópíu (til vinstri), og Abiy Ahmed, forsætisráðherra Eþíópíu. Hér standa þau á torgi í höfuðborginni Addis Ababa og heiðra hermenn sem standa í átökum við Tigraya í norðurhluta landsins. AFP

Það var svo Berhanu Jula, yfirmaður í eþíópíska hernum, sem sagði á blaðamannafundi í morgun að Ghebreyesus gangi erinda Tigraya í átökunum við eþíópísk stjórnvöld. Ghebreyesus gegndi embætti heilbrigðisráðherra á árum áður, þá sem félagi í TPLF, og því sagði Jula að hann „hafi unnið að því í nágrannaríkjum að fordæma stríðið. Hann hafur einnig unnið að því að safna vopnum fyrir Tigrayana.“

Ghebreyesus hefur ekki enn tjáð sig um ásakanirnar.

Deildar meiningar um áhrif á óbreytta borgara

Ahmed forsætisráðherra fullyrðir að átökin í Tigraya beinist ekki að óbreyttum borgurum á svæðinu heldur gegn „ofstopafullum“ félögum í TPLF. Margir hafa þó lýst yfir áhyggjum sínum af því að Tigrayum í Eþíópíu verði sagt upp störfum á vinnustöðum sínum eða jafnvel handteknir fyrir það eitt að vera Tigrayar.

Áður hefur verið greint frá því að mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna hafi óskað eftir því að rannsókn fari fram á því hvort eþíópísk stjórnvöld hafi myrt mörg hundruð óbreyttra borgara í Tigraya-héraði. Reynist það rétt er sagt að um stríðsglæpi sé að ræða.

mbl.is