Handtekinn í tengslum við morð á 12 ára stúlku

Blóm og kerti við morðstaðinn daginn eftir morðið. Þar hefur …
Blóm og kerti við morðstaðinn daginn eftir morðið. Þar hefur minningarreit nú verið komið fyrir. AFP

Karlmaður var í morgun handtekinn í Stokkhólmi grunaður um að hafa haldið verndarhendi yfir manni sem skaut til bana tólf ára stúlku í úthverfi borgarinnar í ágúst. Húsleit var gerð á heimili hans í kjölfarið og hefur annar maður, sem ekki hefur réttarstöðu sakbornings, verið kallaður til vitnis. Sænska ríkissjónvarpið greinir frá.

„Eftir ítarlega rannsóknarvinnu sem hefur staðið frá fyrsta degi höfum við loks ástæðu til að framkvæma handtöku. Þetta er stórt skref fram á við í rannsókninni,“ er haft eftir Lukas Molander, lögregluþjóni sem fer fyrir rannsókninni, í fréttatilkynningu.

Morðið skók sænsku þjóðina á sínum tíma. Bifreið var ekið framhjá bensínstöð í bænum Botskyrka í útjaðri Stokkhólms um miðja nótt og nokkrum skotum hleypt af.

Talið er víst að at­lög­unni hafi verið beint að tveim­ur liðsmönn­um glæpa­geng­is sem stadd­ir voru fyr­ir utan McDon­ald's-veit­ingastað við hliðina en að sögn vitna voru þeir íklædd­ir skotheld­um vest­um. Þess í stað hæfði ein kúlan stúlkuna, sem var úrskurðuð látin stuttu eftir komuna á sjúkrahús.

Rannsóknin er ofarlega á forgangslista lögreglunnar í Stokkhólmi. Nærri 500 yfirheyrslur hafa verið haldnar vegna málsins og upplýsingum verið safnað víða. „Vonir standa til að við getum handtekið fleiri á næstunni,“ segir Molander.

mbl.is