Með hass fyrir tvo milljarða

Hassið sem lögregla fann í vöruflutningabifreið í Skien er eitt …
Hassið sem lögregla fann í vöruflutningabifreið í Skien er eitt það mesta sem norsk lögregla hefur lagt hald á í einu lagi fram til þessa, á áttunda hundrað kílógrömm. Ljósmynd/Lögreglan í Skien

Þegar lögreglan í Skien í Noregi lét til skarar skríða og réðst til inngöngu í lagerhúsnæði á Kjørbekk laugardaginn 21. nóvember fletti hún ofan af einu stærsta hassmáli sem upp hefur komið í landinu.

Á vettvangi hittust fyrir Norðmaður á þrítugsaldri og rúmlega fimmtugur litáískur karlmaður sem voru um það bil að hefjast handa við að losa farm vörubifreiðar á pólskum númerum með tengivagn.

Reyndist þar um að ræða rúmlega 700 kílógrömm af hassi sem lögregla áætlar að selja mætti fyrir allt að 140 milljónir norskra króna í smásölu, jafnvirði rúmlega tveggja milljarða íslenskra króna.

Jafnvel skipulögð glæpastarfsemi

„Þetta er eitt mesta magn hass sem norsk lögregla hefur nokkru sinni lagt hald á,“ segir Odd Skei Kostveit, lögmaður suðausturumdæmis lögreglunnar, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK.

Síðan málið kom upp hefur lögregla handtekið einn Norðmann til og eru mennirnir þrír grunaðir um stórfellt fíkniefnabrot, jafnvel skipulagða glæpastarfsemi takist lögreglu að færa sönnur á að efnið hafi verið flutt til landsins með pólskskráðu vörubifreiðinni. Er refsiramminn þá 21 ár, ellegar 15 sé um fíkniefnabrot að ræða einvörðungu.

„Lögreglan hefur ástæðu til að ætla að fleiri tengist málinu og útilokum við því ekki að fleiri handtökur muni eiga sér stað,“ segir Kostveit og enn fremur að miðað við magnið megi ætla að hassið hafi átt að fara í dreifingu víða um land, en fjölmiðlar greindu frá því í tengslum við annað fíkniefnamál fyrir skömmu að hörgull hefði verið á hassi í Norður-Noregi og víðar undanfarið.

Lögreglan í Telemark stjórnar rannsókn málsins og nýtur aðstoðar rannsóknarlögreglunnar Kripos. Grunur leikur á að erlendi maðurinn hafi ekið bifreiðinni en lögregla segir enn of snemmt að segja nokkuð um uppruna efnisins.

Jonny Sveen, verjandi mannsins, segir umbjóðanda sinn ekki hafa tekið afstöðu til sakarefnisins. „Það eina sem ég get sagt er að umbjóðandi minn situr í einangrun í fangelsinu í Skien.

Tollef Skobba, verjandi Norðmannsins sem handtekinn var á vettvangi, hefur svipaða sögu að segja af sínum manni en gagnrýnir lögreglu fyrir að senda út fréttatilkynningu um málið á meðan umbjóðandi hans situr í gæsluvarðhaldi með bréfa- og heimsóknabanni. „Þessi fréttatilkynning kom mér í opna skjöldu,“ segir Skobba við NRK.

NRK

VG

Aftenposten

mbl.is