Tíu gestir í stað fimm yfir jólin

Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs.
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs. AFP

Norsk stjórnvöld ætla að draga lítillega úr þeim takmörkunum sem hafa verið uppi í landinu vegna kórónuveirunnar. Um jólin og í kringum nýárið má fólk bjóða tíu manns heim til sín í stað fimm.

Reglurnar eru þannig núna að í heimsókn á hvert heimili mega í mesta lagi koma fimm gestir, svo lengi sem fólk heldur eins metra fjarlægð hvert frá öðru.

Þessi regla verður áfram í gildi fram á næsta ár, nema hvað að undantekning verður gerð í kringum jólin. Tvisvar sinnum á þessum tíma má bjóða allt að tíu gestum inn á hvert heimili.

„Þið verið að spila þetta eftir eyranu og hugsanlega bæta við lítilli framlengingu á matarborðið á þessu ári,“ sagði Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, við blaðamenn.

Hvorki er hvatt til ferðalaga innanlands né erlendis. Flestir þeirra sem fara utan þurfa að fara í sóttkví við heimkomuna til Noregs.

Áfengissala bönnuð

Nýjar sóttvarnareglur hafa ekki verið settar undanfarið í Noregi líkt og í mörgum öðrum ríkjum Evrópu. Núverandi reglur í landinu gilda til 16. desember. Fyrir utan þær hafa yfirvöld í höfuðborginni Ósló bannað sölu áfengis á börum og veitingastöðum. Fyrir vikið hafa margir staðir þurft að loka.

Hlutfall smitaðra í Noregi er eitt það lægsta í Evrópu. Í dag höfðu 36.591 þúsund manns smitast af veirunni og 351 látið lífið af hennar völdum.

mbl.is