Vanmáttug barátta við hlýnun eins og sjálfsvíg

Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, á fundi fyrir tveimur árum …
Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, á fundi fyrir tveimur árum síðan. AFP

Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, líkti því við sjálfsvíg hvernig þjóðum heimsins hefur mistekist að stöðva hlýnun jarðar. Það hvernig þjóðir bregðast við eftir kórónuveirufaraldurinn getur falið í sér nýtt tækifæri fyrir mannkynið til að bjarga plánetunni.

„Ástand plánetunnar er brostið. Mannkynið á í stríði við náttúruna. Þetta er sjálfsvíg,“ sagði Guterres í ræðu við Columbia-háskóla í New York-borg, og átti þar við að þjóðir heims væru að skjóta sig í fótinn með aðgerðaleysi sínu.

Kóralrifið Great Barrier undan ströndum Queensland í Ástralíu.
Kóralrifið Great Barrier undan ströndum Queensland í Ástralíu. AFP

„Á næsta ári höfum við tækifæri til að hætta yfirganginum og byrja að láta sárin gróa,“ bætti hann við. „Batinn eftir Covid og lagfæring á plánetunni okkar þurfa að vera tvær hliðar á sama peningi.“

Guterres kallaði eftir því að þjóðir dragi úr notkun jarðefnaeldsneytis og sagði að ráðstefna sem verður haldin 12. desember vegna fimm ára afmælis Parísarsáttmálans eigi að lýsa leiðina fram á við.

Votlendið Pantanal í ríkinu Mato Gross í Brasilíu.
Votlendið Pantanal í ríkinu Mato Gross í Brasilíu. AFP

Ekkert bóluefni fyrir plánetuna

„Ný veröld er að mótast,“ sagði hann.

„Líffræðileg fjölbreytni er að hverfa. Ein milljón tegunda á í hættu á því að deyja út. Vistkerfi eru að hverfa fyrir framan augun á okkur. Eyðimerkur eru að stækka. Votlendi er að hverfa. Á hverju ári töpum við 10 milljónum hektara af skógi.

„Það er ofveiði í höfunum, sem eru að kafna í plastúrgangi. Koltvísýringurinn sem þau drekka í sig veldur því að sjórinn er að súrna. Kóralrif eru að upplitast og deyja. Loft- og sjávarmengun eru að drepa níu milljónir manna á hverju ári.“

Guterres sagði mikilvægt að jarðarbúar „friðmælist við náttúruna“ og að það verði í hæsta forgangi á 21. öldinni. „Það er ekki til neitt bóluefni fyrir plánetuna,“ bætti hann við.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert