Tilbúnir í bólusetningu fyrir opnum tjöldum

Frá vinstri George W. Bush, Barack Obama og Bill Clinton.
Frá vinstri George W. Bush, Barack Obama og Bill Clinton. AFP

Bandaríkjaforsetarnir fyrrverandi Barack Obama, George W. Bush og Bill Clinton hafa boðist til þess að láta bólusetja sig við kórónuveirunni fyrir framan myndavélar ef það hjálpar til við að fá almenning til að gera slíkt hið sama.

Í viðtali við útvarpsstöðina SirusXM sagði Obama að hann myndi láta bólusetja sig ef Anthony Fauci, sóttvarnalæknir Bandaríkjanna, samþykkir notkun bóluefnis.

„Ef Anthony Fauci segir mér að þetta bóluefni er öruggt og að það megi bólusetja með því, þú veist, og þú verður ónæmur gegn Covid, þá er það engin spurning ég þigg það,“ sagði Obama.

„Ég lofa þér að þegar þetta verður tilbúið fyrir almenning sem er ekki í áhættuhópi þá mun ég taka það,“ bætti hann við. „Ég gæti látið bólusetja mig í sjónvarpinu eða látið mynda mig, bara til að fólk viti að ég treysti þessum vísindum og það sem ég treysti ekki er að fá Covid.“

Anthony Fauci sóttvarnalæknir Bandaríkjanna.
Anthony Fauci sóttvarnalæknir Bandaríkjanna. AFP

Freddy Ford, starfsmaður hjá Bush segir að forsetinn fyrrverandi vilji einnig vekja athygli opinberlega á bólusetningu, til dæmis fyrir framan myndavélar. „Fyrst þarf að vera búið að úrskurða að það sé öruggt og að fólk sem er í forgangi fái það fyrst,“ sagði Ford við CNN.

Blaðafulltrúi Clinton greindi einnig frá því í samtali við CNN að forsetinn fyrrverandi væri reiðubúinn að láta bólusetja sig í sjónvarpinu.

Búist er við að bandarísk yfirvöld muni á næstunni samþykkja notkun bóluefnanna Pfizer-BioNTech og Moderna-NIH. Vonir standa til að búið verði að bólusetja 100 milljónir manna  í landinu í lok febrúar.

mbl.is