Lík allra fimm fundin

Svolvær-kirkja í Vågan. Fólkið sem saknað var í gær er …
Svolvær-kirkja í Vågan. Fólkið sem saknað var í gær er nú allt fundið látið í rústum bústaðarins og samfélagið í Vågan er harmi slegið eins og séra Gunnar Már Kristjánsson sagði mbl.is fyrr í kvöld. Ljósmynd/Wikipedia.org

Jarðneskar leifar allra þeirra fimm, fjögurra barna og einnar fullorðinnar manneskju, sem saknað var eftir eldsvoðann á Andøy í Nordland-fylki í Noregi, eru nú fundin í rústum sumarbústaðarins sem brann og leit tæknimanna rannsóknarlögreglunnar Kripos þar með lokið.

Líkin verða krufin á Háskólasjúkrahúsinu í Tromsø þar sem enn fremur verða borin kennsl á þau. Séra Gunnar Már Kristjánsson, þjónandi prestur í Vågan, sagði mbl.is fyrr í kvöld að samfélagið væri bugað og unnið hefði verið sleitulaust alla helgina að áfalla- og sáluhjálp þeirra sem misst hafa ættingja sína, vini og skólasystkini.

Lögregla telur ekki að saknæm háttsemi hafi orsakað brunann heldur hafi verið um hörmulegt slys að ræða.

NRK

VG

mbl.is