Fagnar brotthvarfi „harðstjórans“ Trumps

Hassan Rouhani, forseti Írans.
Hassan Rouhani, forseti Írans. AFP

Hassan Rouhani, forseti Írans, fagnar brotthvarfi „harðstjórans“ Donalds Trumps úr embætti Bandaríkjaforseta síðar í dag.

„Tímabili harðstjórans lauk og í dag er lokadagur hans ískyggilegu valdatíðar,“ sagði Rouhani í ræðu.

„Þetta er náungi sem á þeim fjórum árum sem hann var við völd skildi ekkert eftir sig nema óréttlæti og spillingu og olli sínu eigin fólki og heiminum öllum vandamálum.“

Donald Trump.
Donald Trump. AFP

Á meðan á forsetatíð Trumps stóð beitti hann Íran miklum þrýstingi. Hann dró Bandaríkin út úr tímamótasamningi við Tehran um kjarnorkuvopn árið 2018 og hóf refsiaðgerðir gegn landinu á nýjan leik.

Refsiaðgerðunum var beint gegn mikilvægum olíuviðskiptum Írans og tengslum landsins við alþjóðlega banka sem varð til þess að efnahagur landsins lenti í mikilli niðursveiflu.

Kjarnorkusamningurinn sem náðist á milli stórvelda heimsins og Írans árið 2015 þegar Biden var varaforseti og Barack Obama forseti Bandaríkjanna, setti Íran skýr mörk. Í staðinn var alþjóðlegum refsiaðgerðum gegn landinu aflétt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert