Treysta ekki vottorðum frá Dubai

Dönsk yfirvöld hafa lokað fyrir allt flug til landsins frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum vegna gruns um að skimanir séu ekki nægjanlegar nákvæmar þar í landi. Bannið gildir í fimm daga. Forsætisráðherra Danmerkur óttast frekari tafir við afhendingu bóluefnis.

Allir sem koma með flugi til Danmerkur verða að framvísa neikvæðu Covid-19 prófi sem tekið er innan sólarhrings frá komunni til landsins. Samgönguráðherra Danmerkur, Benny Engelbrecht, segir að dönsk yfirvöld vilji tryggja að fólk komi ekki með falsaðar niðurstöður í skimun sem hægt sé að kaupa í Dubai. 

Hann segir að með fimm daga hléi veiti yfirvöldum tíma til að tryggja að skimun sem vísað er til í vottorðum sé rétt framkvæmd. Á sama tíma og flestir ferðamannastaðir hafi sett afar strangar reglur varðandi ferðalög vegna veirunnar þá hefur engu verið breytt í Dubai.

Mette Frederiksen forsætisráðherra gagnrýndi hóp þekktra einstaklinga í Danmörku sem ferðuðust nýverið til Dubai.

Það sem gerist þegar þú ferðast þá ert þú að taka áhættu um að bera smit til Danmerkur. Þetta dregur úr virki sóttvarnareglna segir Fredriksen. 

Mjög harðar sóttvarnareglur eru í gildi í Danmörku en yfirvöld óttast mjög smithraða veiruafbrigðisins sem fyrst greindist í Bretlandi. Nú hafa 283 greinst með það afbrigði í Danmörku og einn það sem fyrst greindist í Suður-Afríku. Það smit tengist manneskju sem var í Dubai. 

Fyrr í vikunni greindu yfirvöld í Danmörku frá því að þau hefðu lækkað markmið um bólusetningar um 10% á fyrsta ársfjórðungi vegna tímabundinnar minnkun á framleiðslugetu Pfizer/BioNTech bóluefninu í Evrópu. Danir, sem hófu að bólusetja 27. desember, hafa verið mjög snöggir að bólusetja og hafa 3% landsmanna verið bólusett. 

Svo virðist sem myndir af bólusetningum hafi ýtt mjög á Dani hvað varðar bólusetningar en nú eru 87% Dana ákveðnir í að láta bólusetja sig í stað 76% í desember. 

Frederiksen er mjög ósátt við þessar tafir og hefur sagt að það verði að herða á afhendingunni. Bandaríska lyfjafyrirtækið sem framleiðir bóluefnið í samstarfi við þýska fyrirtækið BioNTech segir að framleiðslan verði komin í eðlilegt horf á mánudag, 25. janúar. Jafnframt verði framleiðslan aukin umtalsvert í lyfjaverksmiðjunni í Belgíu.

Hún óttast nú frekari tafir. „Við höfum þörf fyrir bóluefni hér og nú,“ sagði Fredriksen eftir fjarfund með forsætisráðherrum ESB ríkjanna um bólusetningar í gærkvöldi.

Óvíst er hvort Danmörk og önnur ESB-ríki fái bóluefnið frá AstraZeneca afhent fyrr en Lyfjastofnun Evrópu hefur veitt leyfi fyrir það. Frederiksen telur að ríki ESB eigi að gera allt til þess tryggja fleiri skammta. Allir verði að taka þátt í að þrýsta á lyfjafyrirtækin um að framleiða og um leið afhenda meira magn.  

Frétt danska ríkisútvarpsins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert