Ocasio-Cortez þolandi kynferðislegs ofbeldis

Alexandria Ocasio-Cortez, þingkona demókrata í fulltrúadeildinni, lýsti í gærkvöldi sálrænu áfalli sem hún varð fyrir eftir að hafa verið beitt kynferðislegu ofbeldi. Áfalli sem hún upplifði að nýju þegar ráðist var inn í þinghúsið.

Hún greindi frá þessu á Instagram Live þar sem hún gagnrýndi repúblikana fyrir að víkjast undan ábyrgð vegna skrílsins sem ruddist inn í þinghúsið fyrir tæpum mánuði. 

Ocasio-Cortez tárfelldi þegar hún greindi frá ofbeldinu sem hún var beitt. Að þeir sem verði fyrir sálrænu áfalli upplifi það að nýju þegar þeir verða fyrir áfalli að nýju. 

Hún gagnrýndi íhaldssama repúblikana eins og öldungadeildarþingmann Texas, Ted Cruz, í síðustu viku fyrir að neita ábyrgð á voðaverkunum í þinghúsinu þar sem fimm manneskjur létust. Í gær réðst hún á Chip Roy, þingmann Texas í fulltrúadeildinni, sem krafðist þess að hún bæði Cruz afsökunar. 

„Þetta er tækni sem ofbeldismenn beita,“ sagði hún í útsendingunni sem um 150 þúsund manns fylgdust með. „Þegar ég sé þetta gerast, hvernig mér líður, hvernig mér leið, hugsaði ég: Ekki aftur. Ég ætla ekki að láta þetta gerast aftur. Ég ætla ekki að láta þetta koma fyrir aðra sem eru gerðir að þolendum ástands sem þessa aftur. Ég ætla ekki að láta þetta gerast í landinu okkar. Við látum þetta ekki gerast.“

Frétt New York Times

Ocasio-Cortez rifjaði upp atburðina 6. janúar og þá vanlíðan sem helltist yfir hana meðan á umsátrinu stóð. 

Ocasio-Cortez segir að það sé ekki hægt að leyfa þeim sem bera ábyrgð á ástandinu að koma sér undan ábyrgð. Ekki sé hægt að halda áfram og láta sem ekkert hafi gerst. 

BBC fjallar ítarlega um útsendinguna á Instagram

Alexandria Ocasio-Cortez.
Alexandria Ocasio-Cortez. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert