Pútín veðjaði á réttan hest

Vladimír Pútín Rússlandsforseti.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti. AFP

Rússar voru fyrstir þjóða til að veita bóluefni gegn kórónuveirunni tilskilin leyfi. Bóluefnið sem um ræðir er Spútnik V en samkvæmt nýjustu rannsóknum virðist það hafa um 91,6% virkni. Er það jafnframt á pari við bóluefni lyfjarisanna Pfizer og Moderna. 

Í umfjöllun Business Insider er greint frá því að dreifing bóluefnisins hafi hafist í desember,  en efnið hafði verið samþykkt í ágústmánuði. Lítið var vitað um efnið á þeim tíma og að því er fram kemur í umfjöllun fréttamiðla vestanhafs virðist sem veðjað hafi verið á að bóluefnið myndi virka. Engar rannsóknir studdu við það á þeim tíma. 

Einungis prófað á 38 einstaklingum

Þrátt fyrir það lét Vladimir Pútín Rússlandsforseti hefja bólusetningar með lyfinu. Ólíkt bóluefnum sem komið hafa frá Bandaríkjunum eða Bretlandi hófst bólusetning áður en farið var í svokallaðar þriðja fasa tilraunir. Slíkar prófanir fara þannig fram að tugþúsundir einstaklinga eru sprautaðir, en í framhaldinu er skoðað hversu vel efnið virkar. 

Þar koma jafnframt fram aukaverkanir eða gallar, sem hægt er að laga áður en lengra er haldið. Þegar Rússar samþykktu að veita bóluefninu leyfi höfðu einungis 38 einstaklingar verið sprautaðir með Spútnik V í tilraunaskyni. Allir mynduðu mótefni og aukaverkanir voru litlar. 

Veðmálið borgaði sig

Um leið og niðurstöðurnar lágu fyrir í desember var hafist handa við að bólusetja framlínustarfsfólk í heilbrigðisgeiranum. Mætti það mikilli mótstöðu meðal vísindamanna víða um heim, sem héldu því fram að ekki væri búið að sýna fram á að efnið væri öruggt.

Einhverjir héldu því sömuleiðis fram að leyfi fyrir notkun bóluefnisins hefði verið flýtt af pólitískum ástæðum. Veðmál Pútíns virðist þó hafa borgað sig, en niðurstöður þriðja fasa rannsóknar benda, eins og fyrr segir, til nær 92% virkni. Hafa vísindamenn í Rússlandi lýst niðurstöðunum sem miklum sigri. 

Frá bólusetningu í Rússlandi.
Frá bólusetningu í Rússlandi. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert