Lögreglumaðurinn leiddur fyrir dómara

Frá heimili Wayne Couzens.
Frá heimili Wayne Couzens. AFP

Lögreglumaður, sem hefur verið ákærður fyrir að hafa rænt og myrt Sarah Everard í London, var leiddur fyrir dómara í dag. Á sama tíma var göngu í minningu Everard aflýst vegna sóttvarnareglna. 

Lögreglumaðurinn, Wayne Couzens, er 48 ára gamall. Hann kom fyrir dómara í Westminster í morgun þar sem ákæran yfir honum var lesin upp. Hann var handtekinn á þriðjudag og síðustu tvo sólarhringa hefur í tvígang þurft að flytja hann á sjúkrahús vegna sjálfsskaða í fangaklefanum. Honum er gert að mæta á ný fyrir dómara 16. mars. 

Sarah Everard.
Sarah Everard. AFP

Sarah Everard, sem var 33 ára gömul og starfaði við markaðsmál, hvarf sporlaust 3. mars er hún gekk heim frá vinkonu sinni að kvöldlagi í suðurhluta höfuðborgarinnar. 

Couzens var handtekinn á heimili sínu í Kent en lík Everard fannst í skóglendi þar skammt frá á miðvikudag.

Hætt var við gönguna í minningu Everard í dag eftir að lögreglan minnti á skyldur vegna sóttvarnareglna. 

Everard hafði verið í heimsókn hjá vinum í Clapham-hverfinu og var á heimleið, en hún bjó í Brixton sem er um það bil 50 mínútna gangur, um 21:30. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert