Morðingi Söru Everard áfrýjar lífstíðardómi

Wayne Couzens.
Wayne Couzens. AFP

Breski lögreglumaðurinn sem var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir að myrða Söru Everard í London hefur áfrýjað dómnum.

Wayne Couzens, 48 ára, notaði lögregluskilríki sín til að handtaka hina 33 ára Everard er hún var á gangi heim til sín í suðurhluta London 3. mars.

Hann sakaði hana um að hafa brotið reglur í tengslum við Covid-19, handjárnaði hana, setti hana inn í bílinn sinn og nauðgaði henni.

Hann kyrkti hana og kveikti síðan í líkinu í skóglendi um 96 kílómetrum suðaustur af London.

Málið vakti mikinn óhug í Bretlandi og margar konur opnuðu sig varðandi óöryggi sem þær finna fyrir.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, sagðist „fullur viðbjóði“ vegna glæpa Couzens og sagði hann hafa „brugðist algjörlega“ hlutverki sínu við að vernda almenning.

mbl.is