15 látnir og 400 saknað

AFP

Fimmtán eru látnir og 400 er enn saknað eftir að eldur kom upp í flóttamannabúðum rohingja, Cox's Bazar, í Bangladess. 

Johannes van der Klaauw, talsmaður Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna í Bangladess, segir að eldurinn hafi verið gríðarlegur og aldrei hafi jafn mikill eldur blossað upp í búðunum áður.

Hann ræddi við fréttamenn í Genf í gegnum myndfundabúnað frá Daka. Hann segir að staðfest sé að 15 séu látnir, 560 slasaðir og 400 er enn saknað. Að minnsta kosti 10 þúsund skýli urðu eldinum að bráð sem þýðir að 45 þúsund manns hið minnsta eru án skjóls.

mbl.is