Útlit fyrir að Netanjahú haldi velli

Benjamín Netanjahú á kjörstað í morgun.
Benjamín Netanjahú á kjörstað í morgun. AFP

Útgönguspár benda til þess að Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, geti fagnað sigri eftir að Ísraelar gengu að kjörborðinu í fjórða sinn á tveimur árum í dag. 

Spár benda til þess að flokkur hans, Likud, hafi fengið á bilinu 31-33 þingsæti, eða nokkru færra en í síðustu kosningum fyrir ári síðan. Bandalagi hægriflokka, sem flokkur Netanjahu tilheyrir, er hins vegar spáð um 53-54 sætum af 120 á ísraelska þinginu.

Í fréttaskýringu New York Times segir að augljósasta leið Netanjahús til að halda völdum væri að ganga til samninga við Naftali Bennett, leiðtoga öfgaþjóðernissinna og strangtrúaðra gyðinga, hóps sem hefur barist gegn réttindum samkynhneigðra og hvatt til þess að ísraelskum ríkisborgurum af aröbskum uppruna verði vísað úr landi reynist þeir „ótrúir“ ríkinu.

Endanlegra niðurstaðna er ekki að vænta fyrr en í lok viku, og gæti staðan því hæglega breyst.

Sætir ákærum fyrir spillingu

Netanjahú gerði einkar vel heppnaða bólusetningarherferð stjórnvalda að lykilatriði í kosningabaráttunni. Þá hefur hann lofað breytingum á dómskerfi landsins, sem myndu takmarka völd dómara. Stjórnarandstæðingar óttast að hann reyni með því að komast hjá dómsmáli á hendur honum gegn spillingu.

Net­anja­hú hef­ur verið ákærður fyr­ir marg­vís­leg brot í starfi, mútuþægni og fjár­svik og standa réttarhöld yfir. Þá eig­in­kona hans hef­ur verið dæmd fyr­ir að hafa mis­notað op­in­bert fé í eig­in þágu.

Boðað var til kosninga í Ísrael eftir að slitnaði upp úr ríkisstjórnarsamstarfi vegna deilna um fjárlög ríkisins. Sú ríkisstjórn samanstóð af Likud, flokki Netanjahús, og Bláhvíta bandalaginu. Stjórnin var um margt óvenjuleg enda hafði Bláhvíta bandalagið verið stofnað sérstaklega flokki Netanjahús til höfuðs.

Eftir nokkurra mánaða stjórnarkreppu fór þó svo að flokkarnir mynduðu ríkisstjórn, sem lýst var sem „neyðarúrræði“ sökum þess að kórónuveirufaraldurinn var þá nýfarinn að gera vart við sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert