Afþakka bóluefni AstraZeneca

AFP

Yfirvöld í Hong Kong hafa óskað eftir því við lyfjafyrirtækið AstraZeneca að það hætti tímabundið öllum bóluefnasendingum til borgarinnar vegna mögulegra alvarlegra aukaverkana og efasemda um virkni bóluefnisins við nýjum afbrigðum Covid-19. 

Yfirmaður heilbrigðismála í Hong Kong, Sophia Chan, staðfesti þetta í dag og að óskað hafi verið eftir því að hætt verði við sendingar sem fyrirhugaðar voru það sem eftir lifir árs. Þetta sé einnig gert til þess að tryggja að engir bóluefnaskammtar fari til spillis. 

Hong Kong-borg hefur þegar tryggt sér nægar birgðir af bóluefni en íbúar þess eru 7,5 milljónir. Skrifað hefur verið undir samninga um kaup á 7,5 milljónum skammta af BioNTech/Pfizer og eins af kínverska bóluefninu Sinovac. Þegar er byrjað að bólusetja með þessum tveimur bóluefnum í Hong Kong. 

AFP

Evrópska lyfjastofnunin greindi frá því í vikunni að hugsanlega séu tengsl milli bólusetningar með bóluefni AstraZeneca og mjög sjaldgæfra tilfella blóðtappa þar sem magn blóðflagna er einnig minnkað. Mörg ríki hafa valið þann kost að halda áfram að nota bóluefnið en hætt að nota það fyrir fólk sem er yngra en 60 ára. 

Bresk yfirvöld reyndu í gær að draga úr áhyggjum fólks vegna mögulegra aukaverkana og sögðu þær afar sjaldgæfar. Hættan á að veikjast alvarlega af Covid-19 væri miklu meiri en að fá blóðtappa. 

Chan segir að yfirvöld í Hong Kong telji að ekki sé nauðsynlegt að fá bóluefni frá AstraZeneca í ár. Eins væru önnur bóluefni til skoðunar sem gætu veitt betri vörn gegn nýjum afbrigðum kórónuveirunnar.

Fyrr í vikunni óskaði David Hui, ráðgjafi stjórnvalda í Hong Kong og þekktur sóttvarnalæknir, eftir því að yfirvöld þar myndu skipta bóluefni AstraZeneca út fyrir bóluefni Johnson and Johnson en aðeins þarf að bólusetja einu sinni með því. Dótturfélag J&J í Evrópu, Janssen, hefur fengið markaðsleyfi fyrir bóluefnið í Evrópu og er von á því til Íslands á næstunni. 

Kórónuveiran greindist mjög snemma í Hong Kong en með hörðum sóttvarnareglum og grímuskyldu hefur tekist að halda smitum í lágmarki. Þar hafa um 11 þúsund manns smitast og af þeim hafa 205 látist. Bólusetning hefur farið hægt af stað og hafa 529 þúsund fengið fyrri bólusetningu af tveimur. 

mbl.is