Sviptir réttindum við afbrot

Gérald Darmanin, innanríkisráðherra Frakklands.
Gérald Darmanin, innanríkisráðherra Frakklands. AFP

Innanríkisráðherra Frakklands segir að flóttamenn og aðrir útlendingar sem eru dæmdir fyrir saknæmt athæfi eða taldir öfgasinnar verði sviptir dvalarleyfi og eigi yfir höfði sér að vera vísað úr landi.

Þetta kom fram í máli Gérald Moussa Darmanin í viðtali við Le Figaro í gær. Þetta sé í fyrsta skipti sem ríkisstjórnin fari fram á að við flóttamannastofnun landsins, OFPRA, að allir þeir sem ganga gegn gildum lýðveldisins verði sviptir vernd. Hann segir í samtali við AFP-fréttastofuna að áhersla verði lögð á að svipta þá vernd sem hafa brotið gegn allsherjarreglu og eins öfgasinna. Stefnan þykir til marks um nýjar áherslur þegar kemur að innflytjendum, öryggismálum og múhameðstrú í ríkisstjórn Emmanuels Macrons forseta ári fyrir kosningar, bæði forseta- og þingkosningar. Skoðanakannanir benda til þess að helsti keppinautur Macron sé  Marine Le Pen sem leiðir Þjóðfylkinguna. 

Darmanin segir að undanfarna þrjá mánuði hafi 147 flóttamenn verið sviptir stöðu sinni sem hælisleitendur í Frakklandi. Stefna okkar er skýr: dæmum útlendinga eftir því hvað þeir gera ekki hverjir þeir eru.

Í viðtalinu við Le Figaro sagði hann að 1.093 útlendingar, sem dvelja með ólöglegum hætti í Frakklandi, séu á lista leyniþjónustunnar yfir öfgamenn sem eru taldir vera hryðjuverkaógn. Jafnframt séu um 4 þúsund útlendingar með dvalarleyfi í Frakklandi á listanum en 25% eru frá Alsír, 20% Marokkó, 15% frá Túnis og 12% frá Rússlandi.

mbl.is