Milljóna dollara skaðabætur vegna nauðgunar

AFP

Airbnb hefur greitt áströlskum ferðamanni 7 milljónir dollara í skaðabætur, því sem jafngildir rúmlega 850 milljónum króna, eftir að henni var nauðgað í Airbnb-íbúð í New York á gamlárskvöld 2015. 

Konan og vinir hennar náðu í lykil að íbúðinni í nærliggjandi búð þetta kvöld. Árásarmaðurinn hafði látið gera nýjan lykil að íbúðinni sem hann hafði á sér. Konan kom í íbúðina skömmu eftir miðnætti, en árásarmaðurinn, hinn 24 ára Junior Lee, hafði þá falið sig á baðherbergi íbúðarinnar. 

Lee hefur verið ákærður fyrir kynferðisbrot vegna árásarinnar. Hann segist vera saklaus en er enn í varðhaldi. Öryggisteymi Airbnb hafði samband við lögreglu eftir að konan tilkynnti um árásina og kom henni fyrir á hóteli. 

Airbnb hefur einnig boðist til að greiða konunni kostnað vegna árásarinnar, m.a. vegna sálfræðimeðferðar, og greiddi flug fyrir móður hennar frá Ástralíu til Bandaríkjanna. 

Bloomberg greinir frá því að gegn greiðslu bótanna geti konan ekki stefnt Airbnb eða kennt fyrirtækinu um árásina. Talsmaður Airbnb, Ben Breit, sagði þó í samtali við New York Post að fórnarlömb kynferðisbrota geti tjáð sig um upplifanir sínar án takmarkana. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert