Domingo stígur á svið að nýju

Nú, tveimur árum eftir að meint kynferðisleg áreitni varð honum …
Nú, tveimur árum eftir að meint kynferðisleg áreitni varð honum að falli í Bandaríkjunum, er óperusöngvarinn Placido Domingo farinn að stíga á svið á nýju í Evrópu í þeim tilgangi að endurreisa mannorð sitt. AFP

Tveimur árum eftir að ásakanir um kynferðislega áreitni urðu honum að falli í Bandaríkjunum er óperusöngvarinn Placido Domingo farinn að stíga á svið á nýju í Evrópu í þeim tilgangi að endurreisa mannorð sitt.

20 konur stigu fram árið 2019 og sökuðu hann um kynferðislega áreitni. Domingo á meðal annars að hafa neytt margar þeirra til að kyssa sig og gerst sekur um óviðeigandi orðafar og snertingar. Þetta á hann að hafa komist upp með í krafti valds síns í óperuheiminum.

Domingo er samt sem áður enn gríðarlega vinsæll í óperuheiminum og mun í kvöld koma fram í fyrsta skipti síðan í janúar 2019 í Gaveau-óperunni í París.

Þetta kemur í kjölfar sýninga í Moskvu og München á liðnum vikum og eru skipulagðar sýningar á Ítalíu og í Austurríki á komandi vikum.

Tæpu ári eftir aflýsingu

Fyrr í þessum mánuði steig söngvarinn áttræði á svið í Madrid, þar sem hann er einnig fæddur, á góðgerðarhátíð sem hann segir að hafi verið „tilfinningaríkasta stund ferils síns“.

„Að stíga á svið og sjá áhorfendurna gefa manni standandi uppklapp í átta mínútur samfleytt er mögnuð tilfinning,“ sagði hann í samtali við fréttastofu AFP.

„Þegar ég byrjaði hélt ég að ég myndi ekki geta sungið. Svo sterkar voru tilfinningarnar,“ sagði hann.

Tónleikarnir í Madrid voru ekki nema tæpu ári eftir að menningarmálaráðuneyti Spánar aflýsti heilli tónleikaröð vegna rannsóknarinnar á meintri áreitni hans.

mbl.is