Krefjast svara vegna hörmunganna

Ríkisstjóri Flórída, Ron DeSantis, segir að fólk „eigi rétt á að vita“ hvers vegna 12 hæða íbúðarhús hrundi í Miami. Leit að eftirlifendum hélt áfram í gær og nótt en hefur enn ekki borið árangur. Fjórir eru látnir og 159 er saknað. 

Ekki liggur fyrir hve margir voru í öðrum Champlain-turnanna þegar hann hrundi á fimmtudag. 120 manns hafa þegar gefið sig fram við yfirvöld. 

Fólk veltir því nú fyrir sér hvernig byggingin hafi getað hrunið. DeSantis sagði í gær að áherslan væri nú lögð á leit að eftirlifendum. Hann kallaði þó eftir „tímanlegri“ skýringu á því sem gerðist og sagði mikilvægt að fá á hreint hvort um væri að ræða einstaka tilfelli eða stærra vandamál. Rannsókn á hruni turnsins hefst strax í kjölfar björgunaraðgerða. 

Byggingu Champlain-turnanna lauk árið 1981. 

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur samþykkt að neyðarástandi verði lýst yfir í Flórídaríki. 

Frá björgunaraðgerðunum á Miami.
Frá björgunaraðgerðunum á Miami. AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert