Síðasta fórnarlamb hrunsins í Miami

Leitarteymi höfðu gefist upp en sjálfboðaliðar lögreglu tóku þá við …
Leitarteymi höfðu gefist upp en sjálfboðaliðar lögreglu tóku þá við og fundu konuna. CHANDAN KHANNA

Búið er að bera kennsl á síðasta líkið sem fannst í rústunum eftir að fjölbýlishús hrundi í Miami, Florida. Þar með hafa 98 dauðsföll verið staðfest vegna hrunsins.

Estelle Hedaya hét konan en hún var 54 ára gömul og hafði verið saknað síðan 24. júní, þegar fjölbýlishús sem hún bjó í, hrundi. Hún starfaði fyrir skartgripafyrirtæki og bjó á sjöttu hæð hússins.

Leitarteymi hafa kembt svæðið vikum saman og á föstudaginn tilkynntu forsvarsmenn þeirra að leitinni væri lokið, þá hafði Hedaya ekki enn komið í leitirnar.

Sjálfboðaliðar lögreglunnar ákváðu að halda leitinni áfram þar til þeir fundu líkið grafið undir rústunum og fjölskyldan bar kennsl á það í gær. 

Upprunalega var talið að 159 manns hefðu orðið undir rústunum en eftir vandlega yfirferð komst lögreglan að því að sú tala gæti ekki staðist og eru þeir sannfærðir um að nú séu öll fórnarlömbin fundin.

mbl.is