Sýktist af tveimur afbrigðum samtímis og lést

Hin ýmsu afbrigði veirunnar breiðast nú hratt um heiminn.
Hin ýmsu afbrigði veirunnar breiðast nú hratt um heiminn. AFP

Sérfræðingar í faraldsfræðum segja að hægt sé að fá tvö afbrigði kórónuveirunnar á sama tíma, eftir að 90 ára gömul kona lést í mars hafandi smitast bæði af Alfa- og Beta-afbrigðum veirunnar.

BBC greinir frá.

Konan, sem lést í mars í Belgíu þar sem hún var búsett, hafði ekki verið bólusett gegn veirunni og læknar hennar telja að tveir mismunandi einstaklingar hafi smitað hana af afbrigðunum.

Fleiri slík tilfelli

Læknarnir telja einnig að tilfellið sé hið fyrsta sinnar tegundar í heiminum og að fleiri tilfelli sjáist nú, þótt þau séu afar sjaldgæf.

Tilfelli belgísku konunnar verður til umræðu á Evrópuþingi klínískrar örveiru- og faraldsfræði.

Í janúar á þessu ári var tilkynnt um tvo einstaklinga í Brasilíu sem virtust hafa smitast af tveimur afbrigðum veirunnar, þar af einu sem valdið hefur áhyggjum, Gamma-afbrigðinu.

Sérfræðingar í Portúgal meðhöndluðu nýverið 17 ára stúlku þar í landi, sem virtist hafa smitast af veirunni á meðan hún jafnaði sig af öðru smiti sem enn var virkt.

mbl.is