Tsimanouskaya fær landvistarleyfi í Póllandi

Fjölmiðlar safnast saman fyrir utan pólska sendiráðið í Tókýó.
Fjölmiðlar safnast saman fyrir utan pólska sendiráðið í Tókýó. AFP

Krysts­ina Tsimanou­skaya, hvítrússneska frjálsíþróttakonan sem neitaði að yfirgefa Ólympíuleikana að fyrirmælum liðstjóra sinna, hefur fengið landvistarleyfi í Póllandi. Þetta staðfestir Marcin Przydacz, aðstoðarutanríkisráðherra Póllands.

Fram kemur á twittersíðu ráðherrans að Tsimanouskaya sé komin í samband við pólska sendiherrann í Tókýó. Henni verði veitt landvistarleyfi vegna mannúðarástæðna. Þá segir hann einnig að Pólland muni gera allt sem þarf til þess að hún þurfi ekki að leggja skóna á hilluna.

Mbl.is greindi frá því í morgun að Tsimanouskaya hefði einnig sótt um hæli í Japan og í Tékklandi.

Haft er eftir ráðherranum úr sjónvarpsviðtali að Tsimanouskaya hafi leitað til pólskra yfirvalda vegna „erfiðrar stöðu sinnar“ og hún væri „í öruggum höndum í pólska sendiráðinu í Tókýó“.

„Pólland leggur fram hjálparhönd til hvítrússneskra borgara sem vegna pólitískra ástæðna vilja yfirgefa landið eða vilja ekki snúa þangað aftur,“ sagði Przydacz.

Í pólskum fjölmiðlum er haft eftir starfsfólki utanríkisþjónustunnar þar í landi að Tsimanouskaya muni ferðast til Póllands síðar í vikunni.

mbl.is