Timanovskaya lent í Póllandi

Timanovskaya er lent heil og höldnu í Póllandi.
Timanovskaya er lent heil og höldnu í Póllandi. AFP

Hvítrússneski spretthlauparinn Krystsina Timanovskaya er lent í Póllandi, þar sem hún hefur fengið landvistarleyfi. Fékk hún hlýjar móttökur frá Hvít-Rússum á flugvellinum sem veifuðu hvítrússneska fánanum til að fagna komu hennar.

Marcin Przydacz, varautanríkisráðherra Póllands, sagði í samtali við fréttastofu Reuters að Timanovskaya væri ánægð að vera komin á öruggan stað, til Póllands. Hún væri þó uppgefin og þyrfti að hvílast.

„Vonum að ógnarstjórnin taki senn enda“

Krystina flúði til Póllands þar sem hún óttaðist um öryggi sitt en henni var gert að snúa heim til Hvíta-Rússlands í kjölfar gagnrýni sem hún setti fram gegn hvítrússneska íþróttasambandinu.

„Við erum hér til þess að styðja föðurlandssystur okkar. Hún er búin að fletta ofan af því sem er að gerast í íþróttaheiminum í Hvíta-Rússlandi,“ sagði Eugene Dudkin, sem flúði einnig til Póllands eftir að hafa verið vistuð í eina nótt í fangaklefa í Hvíta-Rússlandi fyrir mótmæli.

Þá tísti Pawel Latushko, meðlimur stjórnarandstöðunnar þar í landi, sem staddur er í Póllandi, mynd af sér og Tsimanouskayu og skrifaði: „Við vonum að ógnarstjórnin taki senn enda og Krystina geti snúið aftur á svið íþróttanna í nýju Hvíta-Rússlandi!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert