Handtökuheimild gefin út á hendur kærastanum

Alríkisfulltrúar gera húsleit á heimili Brians Laundrie.
Alríkisfulltrúar gera húsleit á heimili Brians Laundrie. AFP

Bandaríska alríkislögreglan (FBI) hefur gefið út handtökuheimild á hendur Brian Laundrie, kærasta Gabby Petito, vegna notkunar hans á „ólöglegum tækjabúnaði“.

Petito fannst látin fyrir skemmstu og hafði hún verið myrt. FBI leitar nú að Laundrie vegna málsins, en hann hefur einnig horfið sporlaust. Deildar meiningar eru hvort hann hafi horfið af sjálfsdáðum til þess að flýja lögreglu eða hvort hvarf hans sé ósvikið.

Í útgefinni handtökuheimild segir að Laundrie hafi notað debetkort og PIN-númer bankareiknings sem var ekki í hans eigu dagana 30. ágúst og 1. september sl., eins og kemur fram í frétt BBC um málið.

Gabby Petito.
Gabby Petito. AFP

Dularfullt mál

Laundrie og Petito höfðu verið á ferðalagi í fáeinar vikur þegar Laundrie sneri einsamall aftur að heimili þeirra í Flórída þann 1. september. Hann hafði hvorki samband við lögreglu né tengdafjölskyldu sína.

Foreldrar Petito tilkynntu enda um hvarf dóttur sinnar 10 sögum síðar og á sunnudag fannst lík hennar í Grand Teton-þjóðgarðinum í Wyoming-ríki.

Tveimur vikum áður en Petito týndist var hvítur húsbíll þeirra Laundries stöðvaður af lögreglu vegna gruns um heimilisofbeldi. Á búkmyndavélum lögreglu má sjá Petito gráta og segja að þau hafi rifist meira en vanalega að undanförnu. Lögregla mældist til að þau eyddu einni nótt í sundur og hélt svo sína leið.

Petito og Laundrie ferðuðust á hvíta húsbílnum og höfðu sagt ferðasögu sína á samfélagsmiðlum. Á YouTube má sjá myndband, sem um 5 milljónir manna hafa horft á, þar sem þau segja frá upphafi ferðar sinnar.

Þá lék allt í lyndi og hafa margir notendur skrifað athugasemdir við myndbandið og lýst því hve skrýtin upplifun það sé að horfa á það, nú þegar Petitio hefur verið myrt og Laundrie er hvergi að finna.

mbl.is