Sósíaldemókratar unnu: „Nú hefst störukeppnin“

Laschet (t.v.) og Scholz (t.h.) stefna báðir að því að …
Laschet (t.v.) og Scholz (t.h.) stefna báðir að því að mynda ríkisstjórn fyrir jól.

Sósíaldemókratar unnu kosningar í Þýskalandi með litlum mun eða 25,7 prósentum atkvæða. Flokkur Kristilegra demókrata, flokkur Angelu Merkel Þýskalandskanslara, hlaut 24,1 prósent atkvæða í sinn hlut. Er um að ræða verstu niðurstöður kosninga fyrir flokkinn frá árinu 1949. „Nú hefst störukeppnin,“ skrifar þýski fjölmiðillinn Der Spiegel um stöðuna sem upp er komin en báðir flokkar hafa óskað eftir stjórnarmyndunarumboði.

Græningjar fengu 14,8 prósent atkvæða sem er þeirra besti árangur til þessa en samt sem áður er hlutfallið lægra en þeir höfðu búist við. 

Vilja báðir mynda ríkisstjórn fyrir jól

Olaf Scholz, varakanslari, fjármálaráðherra og leiðtogi Sósíaldemókrata, sagði að það væri hans skylda að taka við stjórnartaumunum í landinu en Merkel tilkynnti það fyrir nokkru að hún hygðist ekki gefa kost á sér í kanslaraembættið þetta kjörtímabilið. 

Þjóðverjar hafa fengið að venjast pólitískum stöðugleika síðustu ár en Merkel hefur leitt þjóðina í sextán ár. Útlit er fyrir að draga muni úr þessum stöðugleika á næstu vikum og mánuðum, í það minnsta á meðan stjórnarmyndunarviðræður standa yfir. 

Armin Laschet, kanslaraefni Kristilegra demókrata, hefur nefnilega einnig óskað eftir því að fá stjórnartaumana í sínar hendur. Hann segist vilja stýra stjórnarmyndunarviðræðum.

Laschet og Scholz stefna báðir að því að mynda ríkisstjórn fyrir jól.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert