Bandaríkin snúa aftur í mannréttindaráð SÞ

Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna hefur aðsetur í Genf í Sviss.
Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna hefur aðsetur í Genf í Sviss. AFP

Bandaríkin munu snúa aftur í mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna um næstu áramót, þremur og hálfu ári eftir að þau gengu þaðan út með dramatískum hætti.

Síðan þá hafa Kínverjar notað tímann til að auka áhrif sín.

Þrátt fyrir að kosningar í ráðið séu leynilegar er samt ljóst hvaða þjóðir skipa þau 18 sæti sem eru í boði því 18 þjóðir eru í framboði þegar kosið verður í dag.

Þegar Donald Trump var Bandaríkjaforseti gekk þjóðin út úr ráðinu árið 2018 og sakaði það um hræsni og fordóma í garð Ísraels. 

Þegar Bandaríkjamenn snúa aftur í ráðið undir stjórn Joe Bidens Bandaríkjaforseta þurfa þeir að horfa upp á aukin áhrif Kínverja þar, að sögn AFP-fréttastofunnar. 

„Kínverjar og allir þeir sem eru í grundvallaratriðum gegn mannréttindum eins og Evrópa skilgreinir þau…eru á móti efnahagslegum-, félagslegum-, og menningarlegum réttindum. Það er ekkert nýtt en áhrifin þeirra eru tvímælalaust að aukast,“ sagði evrópskur erindreki við AFP.

mbl.is