Munu birta skjöl um morðið á J.F.K. á næsta ári

Joe Biden á 10 ára afmæli Martin Luther King-minnisvarðans.
Joe Biden á 10 ára afmæli Martin Luther King-minnisvarðans. AFP

Hvíta húsið frestaði í gær birtingu trúnaðargagna tengdum morðinu á John F. Kennedy, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, fram í desember á næsta ári. Donald Trump opinberaði þúsundir gagna um morðið í sinni forsetatíð en undanskildi nokkur á grundvelli þjóðarhagsmuna.

Ætlunin var að birta þau skjöl sem voru undanskilin núna en Joe Biden, núverandi forseti Bandaríkjanna, tilkynnti í gær að gögnin yrðu áfram trúnaðarmál fram til 15. desember á næsta ári. 

Talsmenn Hvíta hússins segja þjóðskjalaverðina þurfa meira ráðrúm til þess að fara yfir þau skjöl sem á eftir að birta og að það ferli hafi tafist vegna heimsfaraldurs. 

Biden segir töfina auk þess „nauðsynlega til að verjast áþreifanlegri hættu sem steðjar að hervörnum, leyniþjónustu, löggæslu og starfa okkar á alþjóðavettvangi,“ og sagði það vega þyngra en réttur almennings til að sjá gögnin. 

Umdeild rannsókn

Eftir 10 mánaða rannsókn á morði John F. Kennedy var niðurstaðan sú að Lee Harvey Oswald hefði verið einn að verki við verknaðinn þegar hann skaut forsetann í bílalest í Dallas. Rannsókn þessi sætti þó nokkurri gagnrýni og nefnd á vegum þingsins komst að þeirri niðurstöðu síðar að Kennedy hefði líklega verið myrtur fyrir tilstilli einhvers konar samsæris. 

Í Bandaríkjunum er ríkisstjórninni skylt að opinbera öll skjöl tengdum morðum á hátt settra embættismanna. 

mbl.is

Bloggað um fréttina