Kallar eftir markvissum aðgerðum í loftslagsmálum

Frans páfi hvetur leiðtoga ríkja heimsins til dáða.
Frans páfi hvetur leiðtoga ríkja heimsins til dáða. AFP

Frans páfi kallar eftir því að leiðtogar ríkja heimsins veiti hnattrænni hamfarahlýnun „áhrifamikil viðbrögð“ til þess að skapa „örugga von“ um bjartari framtíð fyrir komandi kynslóðir.

Þetta sagði hann í sérstöku ávarpi, sem útvarpað var af BBC, í tilefni af loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Glasgow í næstu viku.

Þar koma saman leiðtogar aðildarríkjanna og ræða sín á milli hvað sé til bragðs að taka í baráttunni gegn hnattrænni hamfarahlýnun og loftslagsbreytingum.

Ráðstefnan er sú stærsta sinnar tegundar frá því SÞ héldu ráðstefnu í París árið 2015, þar sem aðildarríkin skrifuðu undir Parísarsamkomulagið svokallaða.

Þurfum öll að leggja okkar af mörkum

Frans páfi, sem meðal annars á fund með Joe Biden Bandaríkjaforseta á næstunni, fór um víðan völl í ávarpi sínu og talaði meðal annars um heimfaraldurinn og efnahagslega örðugleika á heimsvísu í kjölfar hans. Mest talaði hann þó um loftslagsbreytingar.

„Við getum mætt áskorunum með því að beita eingangrunarstefnu, verndarstefnu og arðráni,“ sagði páfinn og bætti við: „Eða þá að við getum séð í þeim tækifæri til þess að breyta út af vananum.“

Hann sagði þannig að jarðarbúar – hvert eitt og einasta okkar – þyrftum að finna til ábyrgðar á stöðu mála og leggja okkar lóð á vogarskálarnar í þágu breytts hugarfars þegar kemur að loftslagsvandanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert