Sögulegt samkomulag í Róm

AFP

Leiðtogar G20-ríkjanna, sem eru stærstu iðnríki heims, náðu í dag samkomulagi um að leggja að minnsta kosti 15% skatt á hagnað alþjóðlegra stórfyrirtækja. Allir leiðtogarnir samþykktu skattlagninguna á fundi sínum í Róm á Ítalíu. 

Markmiðið er að koma í veg fyrir að alþjóðleg stórfyrirtæki reyni að flytja hagnað til lágskattalanda. Það voru bandarísk stjórnvöld sem lögðu þetta til, en búist er við að samkomulagið verði staðfest með formlegum hætti á morgun og að það muni taka gildi árið 2023.

Loftslagsbreytingar og baráttan við kórónuveiruna eru einnig til umræðu á fundi leiðtoganna, en þetta er í fyrsta sinn frá því faraldurinn braust út sem flestir leiðtoganna koma saman til að funda. 

Nítján ríki og Evrópusambandið mynda G20-hópinn. Vladimír Pútín, forseti Rússlands, og Xi Jinping, forseti Kína, voru einu leiðtogarnir sem mættu ekki til Rómarborgar, en þeir fylgdust þó með og ávörpuðu viðstadda í gegnum fjarfundarbúnað. 

Janet Yellen, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, segir að þetta sögulega samkomulag hafi verið mikilvæg stund fyrir heimshagkerfið. Hún segir að bandarísk fyrirtæki og starfsmenn muni njóta góðs af þessu samningi, þrátt fyrir að mörg bandarísk stórfyrirtæki muni þurfa að greiða hærra skatta. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert