Svíþjóð sker sig ekki lengur úr í farsóttinni

Faraldsfræðingurinn Anders Tegnell gerir Svíum grein fyrir stöðunni í faraldrinum …
Faraldsfræðingurinn Anders Tegnell gerir Svíum grein fyrir stöðunni í faraldrinum á einum af fjölmörgum blaðamannafundum í beinni. AFP

Sænski faraldursfræðingurinn Anders Tegnell er ekki fullur eftirsjár vegna sóttvarnaviðbragða Svía, sem hann var helsti hugmyndafræðingurinn að. Hann fékk því framgengt að í Svíþjóð yrði ekki gripið til víðtækra samfélagstakmarkana í baráttu við veiruna, sem þótti gefa misjafna raun á sínum tíma, og var ýmist hampað eða harðlega gagnrýndur.

„Við höfum átt í þessu í tvö ár og Svíþjóð sker sig í raun ekki úr. Við erum ekki best á vegi stödd, en við erum greinilega alls ekki verst,“ sagði Tegnell í viðtali við Richard Milne, blaðamann Financial Times, fyrir helgi. „Það er það sem ég heyri núna: hversu gagnlegar voru þessar harðneskjulegu [sóttvarnaaðgerðir] fyrir nokkurn mann?“

Tegnell bendir á, að þrátt fyrir að Svíar hafi ekki gripið til sams konar aðgerða og önnur ríki í Evrópu, þá hafi umframdauðsföll í landinu verið með minnsta móti. Þar í landi var ekki komið á útgöngubanni, lokunum á skólum, veitingastöðum og verslunum, líkt og víða hefur verið gert undanfarin misseri.

Fleiri mælikvarða má vitaskuld leggja á afleiðingar heimsfaraldursins en umframdauðsföll (dánartíðni umfram það sem gerist í meðalári), en Tegnell vekur athygli á að þar sé Svíþjóð víðast við meðaltalið.

Það þýðir þó ekki að ástæða sé til þess að varpa öndinni léttar, Tegnell segir að snaraukin veikindi í Danmörku og Þýskalandi, einkum meðal óbólusettra, sé áhyggjuefni sem Svíar taki mjög alvarlega.

Að undanförnu hafa heyrst fleiri gagnrýnisraddir í Svíþjóð á stefnu Tegnells og sænskra stjórnvalda, einkum viðbrögðin snemma í faraldrinum árið 2020. Þá breiddist veiran mun örar út en gerðist annars staðar á Norðurlöndum. Opinber rannsóknarnefnd á sóttvarnaviðbrögðum hefur verið meðal þeirra sem fundið hafa að seinum viðbrögðum, en ætlar hins vegar ekki að kveða upp úr um afleiðingar stefnunnar fyrr en á næsta ári.

Á Tegnell er hins vegar engan bilbug að finna. Hann bendir á að Svíar hafi vissulega gripið til harðra aðgerða, þrátt fyrir að stjórnvöld hafi ekki fyrirskipað neinar lokanir. Göturnar hafi verið meira og minna auðar árið 2020, fólk hafi unnið heima eins og hægt var, forðast ferðalög og óþarfa samskipti við annað fólk. Afleiðingarnar hafi m.a. birst í nánast engum árvissum flensuveikindum. Hins vegar var gripið til takmarkana í seinni bylgjunni um liðin áramót, þó árangurinn sé óljós.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert