Raðir í bólusetningu í útgöngubanni

Langar raðir hafa myndast fyrir utan bólusetningarstaði.
Langar raðir hafa myndast fyrir utan bólusetningarstaði. AFP

„Ég gekk fram hjá kaffihúsum og veitingastöðum í morgun. Það er skrýtið að horfa inn um gluggana þegar ég veit að ég má ekki fara inn. Mér líður eins og ég hafi verið útskúfuð.“ Þetta segir austurríski jógakennarinn Carina í samtali við BBC. Hún býr í Vínarborg, er ekki bólusett og vill ekki láta bólusetja sig. Carina sætir því útgöngubanni líkt og um tvær milljónir óbólusettra Austurríkismanna.

Hertar sóttvarnaaðgerðir í landinu beinast að óbólusettum, en bólusetningarhlutfall þjóðarinnar er um 65 prósent, sem er eitt lægsta hlutfall meðal ríkja í Vestur-Evrópu. Kórónuveirusmitum hefur fjölgað mikið í Austurríki síðustu vikur og hafa smittölur aldrei verið hærri frá því faraldurinn hófst.

Óbólusettir mega nú aðeins yfirgefa heimili sitt til að sækja vinnu, kaupa í matinn og fara í líkamsrækt. Blaðamaður BBC hitti Carinu því í Vínargarðinum, þar sem hún má gera æfingar.

Hún segist ekki skilja rökin á bak við útgöngubannið og er sorgmædd yfir stöðunni. „Ég er ein af þeim sem eru teiknuð upp sem óvinir. Ég kann ekki við það.“

Hún vill ekki að fólk veikist og segist fara varlega. Þá fari hún reglulega í Covid-próf. „Ég er ekki í áhættuhópi þegar kemur að Covid-19 og mér finnst þetta vera persónuleg ákvörðun hvers og eins. Ég skil fólk sem lætur bólusetja sig og ég skil líka fólk sem vill ekki láta bólusetja sig.“

Fleiri vilja nú láta bólusetja sig

Mótmælafundir hafa verið haldnir á nokkrum stöðum í Austurríki þar sem útgöngubanni óbólusettra er mótmælt. Lögreglan segist kanna það handahófskennt á götum úti hvort fólk sé bólusett. Allir þeir sem ekki geti framvísað bólusetningarskírteini eða staðfest að þeir hafi fengið Covid-19 verði sektaðir.

Lögreglan í Austurríki kannar handahófskennt hvort fólk er bólusett.
Lögreglan í Austurríki kannar handahófskennt hvort fólk er bólusett. AFP

Alexander Schallenberg, kanslari Austurríkis, segir að ríkisstjórn landsins hafi ekki átt annarra kosta völ en að bregðast við mikilli fjölgun smita. Bólusetningarhlutfall þjóðarinnar væri skammarlega lágt og á meðan það væri ekki hærra væri þjóðin föst í vítahring reglulegra útgöngubanna.

Síðan hertar aðgerðir tóku gildi hafa fjölmargir tekið við sér og viljað láta bólusetja sig. Langar raðir hafa myndast fyrir framan bólusetningarstöðvar í Vín. Sumir eru komnir til að fá örvunarskammt á meðan aðrir eru að fá fyrstu sprautuna.

Mikil mistök að gera upp á milli bólusettra og óbólusettra

Dr. Thomas Szekers, formaður austurríska læknaráðsins, segist vonast til að bólusetningarhlutfall þjóðarinnar muni hækka upp í að minnsta kosti 80 prósent. „Við vitum að bólusetning er eina leiðin til að draga úr smitum. Við sjáum það þegar við horfum til annarra landa. Við vonum að útgöngubann óbólusettra í Austurríki verði til þess að draga út fjölgun smita. Sérfræðingar eru þó ekki allir sammála um að það dugi til. Mögulega þurfi að grípa til frekari aðgerða til að lækka tölurnar.

Margir Austurríkismenn taka því fagnandi að fleiri vilji láta bólusetja í kjölfar þess að útgöngubann skall á, en aðrir hafa áhyggjur af því að slíkt útgöngubann standist ekki stjórnarskrá.

Karl Weller, athafnamaður sem blaðamaður BBC hitti á götu í Vínarborg, sagðist vera mjög hlynntur bólusetningu gegn Covid-19. Hún væri nauðsynleg heilsu okkar og efnahag. „Ég held hins vegar að það séu stórkostleg mistök að gera upp á milli bólusettra og óbólusettra með þessum hætti. Fólk verður bara reiðara og hræddara.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert