Slösuðust þegar sprengja úr seinna stríði sprakk

Sprengjan sprakk við lestarstöð í München.
Sprengjan sprakk við lestarstöð í München. AFP

Þrír slösuðust, þar af einn alvarlega, þegar sprengja úr seinni heimstyrjöldinni sprakk á fjölfarinni lestarstöð í München í Þýskalandi í dag.

Sprengingin varð þegar verið var að bora með jarðbor á vinnusvæði við lestarstöðina, en sprengjan lá þar grafin í jörðu. Búið er að girða svæðið af og viðbragðsaðilar fullyrða að engin frekari hætta sé á ferðum. Lestarferðum um stöðina hefur þó verið frestað um óákveðin tíma. The Guardian segir frá.

Um tvö þúsund tonn af virkum sprengjum og öðrum skotfærum finnast í Þýskalandi á ári hverju, um sjötíu árum eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar.

Bretar og Bandaríkjamenn vörpuðu um 1,5 milljón tonnum af sprengjum á Þýskaland í seinni heimsstyrjöldinni, sem urðu um 600 þúsund manns að bana. Ætla má að um 15 prósent af sprengjunum hafi ekki sprungið og sumar þeirra jafnvel grafist allt að sex metra niður í jörðina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert