Telur árlegar bólusetningar nauðsynlegar

Albert Bourla sér fram á árlegar bólusetningar.
Albert Bourla sér fram á árlegar bólusetningar. AFP

Fólk mun líklega þurfa að fá sprautu gegn Covid-19 árlega á næstu árum, að sögn Alberts Bourla, forstjóra Pfizer. Bourla sagðist, í samtali við BBC, telja að árlegar bólusetningar væru nauðsynlegar til þess að hægt væri að halda uppi „mjög mikilli vörn“.

Bretar hafa nú tryggt sér 114 milljónir skammta af bóluefni Pfizer annars vegar og Moderna hins vegar sem munu berast til landsins á næstu tveimur áum. Samningarnir gera ráð fyrir því að Bretar fái skammta sem aðlagaðir eru að nýjum afbrigðum kórónuveirunnar, t.d. Ómíkron, ef þess gerist þörf. 

Bóluefni hafi bjargað milljónum mannslífa

Bourla sagði við BBC að Pfizer hefði nú þegar skapað aðlöguð bóluefni að Beta og Delta afbrigðum veirunnar en að ekki hafi verið talin þörf á að nota þau. 

Pfizer vinnur nú að því að skapa bóluefni sem er aðlagað að Ómíkron afbrigði-veirunnar og stefnir fyrirtækið á að ljúka þeirri vinnu á næstu 100 dögum. Afbrigðið virðist eiga einkar auðvelt með að smitast á milli manna en enn sem komið er bendir ekkert til þess að það valdi alvarlegri veikindum en fyrri afbrigði kórónuveirunnar. 

Bourla sagði að bóluefni hefði hjálpað til við að bjarga milljónum mannslífa í faraldrinum og að án þeirra væri „grunninnviðum þjóðfélagsins ógnað.“

Til þessa hafa þjóðir heims keppst um að fá bóluefnaskammta en Bourla sagði að á næsta ári muni heimsbyggðinni standa til boða eins margir skammtar og hún hefur þörf á. Á sama tíma og flestir Vesturlandabúar eiga þess kost að fara í bólusetningu hefur einungis 1 af hverjum 20 fengið bólusetningu í ákveðnum hlutum Afríku. 

Gróðinn litinn hornauga

Nokkur alþjóðleg hjálparsamtök segja siðlaust að lyfjaframleiðendurnir Pfizer, BioNTech og Moderna hafi grætt jafn mikið á faraldrinum og raun ber vitni.

Í ár mun Pfizer selja bóluefni fyrir að minnsta kosti 35 milljarða bandaríkjadala og hafa hlutabréf í fyrirtækinu hækkað verulega. 

Bourla gaf lítið fyrir gagnrýnina og sagði að mikilvægast væri að milljónum mannslífa hafi verið bjargað og þá hafi bóluefnaframleiðendur einnig forðað hagkerfum heimsins frá enn meiri skaða en faraldurinn hefur nú þegar valdið. 

mbl.is

Bloggað um fréttina