Nauðgunarmál verði fellt niður

Gerald Darmanin í desember síðastliðnum.
Gerald Darmanin í desember síðastliðnum. AFP

Franskir saksóknarar hafa óskað eftir því að nauðgunarmál gegn innanríkisráðherra Frakklands, Gerald Darmanin, verði fellt niður næstum fimm árum eftir að ásökunin var fyrst lögð fram.

Árið 2017 sakaði Sophie Patterson-Spatz ráðherrann um nauðgun, kynferðislega áreitni og misnotkun valds. Náði málið allt aftur til ársins 2009.

Hún sagði Darmanin hafa nauðgað sér eftir að hún bað hann um aðstoð við að þurrka út sakaskrá hennar þegar hann starfaði sem lögfræðiráðgjafi hjá hægriflokknum UMP, forvera franska Repúblikanaflokksins.

Yfirheyrð í níu klukkustundir

Áfrýjunardómstóll fyrirskipaði að málið skyldi opnað á nýjan leik árið 2020 eftir að það var fellt niður árið 2018. Saksóknarar í París tóku í framhaldinu skýrslur af Darmanin og Patterson-Spatz í níu klukkustundir í mars í fyrra.

Hann var aftur á móti yfirheyrður sem vitni en ekki formlega grunaður maður. Hann hefur alltaf haldið því fram að hann hafi verið „ranglega ásakaður“.

Ákvörðun Emmanuels Macron, Frakklandsforseta, um að skipa Darmanin í embætti innanríkisráðherra árið 2020 olli reiði hjá femínistum, enda voru liðnar aðeins nokkrar vikur frá því að málið gegn honum var tekið upp aftur.

mbl.is