Menn Assads fyrir rétt vegna glæpa gegn mannkyni

Læknirinn mætir fyrir dómara í Þýskalandi.
Læknirinn mætir fyrir dómara í Þýskalandi. AFP

Réttarhöld yfir sýrlenskum lækni, sem ákærður er fyrir glæpi gegn mannkyni í stríðshrjáðu heimalandinu, hófust fyrir þýskum dómstólum í dag. 

Læknirinn er hollur forseta Sýrlands, Bashar al-Assad, og pyndaði pólitíska fanga í borgunum Homs og Damaskus á árunu 2011-2012. Meðal þess sem hann er sakaður um er að hafa lagt eld að kynfærum unglingsdrengs sem var í haldi.

Hann er einnig sakaður um að hafa deytt fanga með sprautu, vegna þess að hann sýndi enn andóf gegn forseta landsins þrátt fyrir að hafa verið pyndaður. 

Alaa Mousa, læknirinn sem um ræðir, er 36 ára og kom til Þýskalands árið 2015 og stundaði lækningar þar allt þar til hann var handtekinn. Hann neitar sök. 

Aðeins í síðustu viku var fyrrverandi yfirmaður í sýrlenska hernum sakfelldur fyrir að fyrirskipa morð á 27 pólitískum föngum í þar til gerðum búðum og fyrir að hafa fyrirskipað pyndingar á 4 þúsund öðrum föngum. Hann var dæmdur í lífstíðarfangelsi.

Þeim dómi, sem var sá fyrsti er féll í máli um ofbeldi af hálfu sýrlenskra stjórnvalda, er sagður sögulegur og var honum ákaft fagnað af þeim sem orðið hafa fyrir stálhnefa Sýrlandsforseta. 

Hægt er að dæma í málunum í Þýskalandi vegna alþjóðlegrar heimildar til þess að rétta fyrir glæpi gegn mannkyni, þrátt fyrir að meint brot hafi ekki átt sér stað í því landi sem réttarhöldin frama fram.

mbl.is