Kína breytir endinum á Fight Club

Brad Pitt og Edward Norton léku aðahlutverkin í Fight Club.
Brad Pitt og Edward Norton léku aðahlutverkin í Fight Club. Ljósmynd/IMDb

Bandaríska kvikmyndin Fight Club, sem er frá árinu 1999, endar allsstaðar eins, nema í Kína. Það er vegna þess að kínversk yfirvöld hafa sett inn skilaboð í lok myndarinnar þar sem greint er frá því að yfirvöld stóðu uppi sem sigurvegari.

Fight Club endar á því að sögumaðurinn, sem Edward Norton leikur, drepur sitt ímyndaða annað sjálf, sem Brad Pitt leikur, áður en byggingar jafnast við jörðu í sprengingum í ráðabruggi til að endurskipuleggja samfélagið, en verkefnið í myndinni kallast Project Mayhem. 

Kínverskir áhorfendur fá nú allt annað fyrir sinn snúð. Áður en sprengingarnar hefjast birtast skilaboð sem greina frá því að lögreglunni hafi tekist að stöðva ráðabruggið, glæpamennirnir hafi verið handteknir og sprengjurnar aftengdar. 

Þá segir að Tyler Durden, sem Pitt lék, hafi verið vistaður á geðdeild og hann síðan útskrifaður árið 2012, að því er segir í umfjöllun BBC. 

Fight Club, sem var í leikstjórn David Fincher, var nýlega bætt við streymisveituna Tenecent Video. Samtökin Mannréttindavaktin segja að breytingin á myndinni sé dystópísk, eða mjög neikvæð samfélagsleg lýsing. 

Rithöfundurinn Chuck Palahniuk, sem skrifaði skáldsöguna Fight Club árið 1996, sem kvikmyndin byggir á, hefur tjáð sig um málið á Twitter. Hann skrifaði í kaldhæðni: „Þetta er alveg ofur yndislegt! Allir fá nú góð endalok í Kína!“

mbl.is