Tilnefnir fyrstu svörtu konuna til Hæstaréttar

Ketanji Brown Jackson og Joe Biden Bandaríkjaforseti.
Ketanji Brown Jackson og Joe Biden Bandaríkjaforseti. AFP

Joe Biden Bandaríkjaforseti tilnefndi í dag Ketanji Brown Jackson sem dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna. Verði tilnefningin samþykkt verður Jackson fyrsta svarta konan sem tekur sæti í réttinum. 

Jackson var fyrst skipuð dómari við alríkisdómstól árið 2013, og var síðan skipuð dómari við áfrýjunardómstól Washington umdæmis á síðasta ári. Naut hún stuðning þriggja öldungadeildarþingmanna repúblíkana við síðari skipunina. 

Jackson, sem er 51 árs, mun taka sæti Stephen Breyer við dómstólinn. Bæði Jackson og Breyer þykja frjálslynd í túlkun sinni á stjórnarskrá Bandaríkjanna og mun þá hugmyndafræðileg skipting innan dómstólsins ekki breytast við skipan Jackson. 

Jackson mun á næstu vikum koma fyrir báðar deildir Bandaríkjaþings og viðbúið er að öldungadeildin kjósi um skipan hennar í apríl. Repúblíkanar geta ekki komið í veg fyrir að tilnefning hennar verði samþykkt ef að allir 50 öldungadeildarþingmenn demókrata samþykkja hana. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert