Segir þrýstinginn verða að koma frá auðjöfrum

Andrei Mensjenín blaðamaður búsettur á Íslandi.
Andrei Mensjenín blaðamaður búsettur á Íslandi. Ljósmynd/Aðsend

Fjölmiðlaumhverfið í Rússlandi hefur orðið mun fjandsamlegri þeim fáu sjálfstæðu miðlum sem eftir standa frá því að innrásin í Úkraínu hófst. Eftirlit með umfjöllunum hefur orðið strangara og þeir sem þora að fara gegn ritstjórnarstefnu stjórnvalda hafa fengið að finna fyrir því.

Hafa yfirvöld meðal annars farið fram á að efni þeirra verði tekið af vefnum, sektir gefnar út, blaðamenn handteknir og fjölmiðlunum jafnvel lokað. 

Nú er svo komið að búið er að leysa upp sjálfstæðu útvarpsstöðina Ekkó Moskvu, sem hóf útsendingu árið 1990, og er þetta mikill missir fyrir sjálfstæða fjölmiðlun í landinu.

Þetta segir Andrei Mens­jen­ín, rússneskur blaðamaður sem er búsettur á Íslandi, í samtali við mbl.is. Hann er afar mótfallinn þeim aðgerðum sem Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur gripið til og stóð Andrei meðal annars á bak við mótmælin sem haldin voru við rússneska sendiráðið á fimmtudaginn í síðustu viku.

Reyna að finna leiðir til að miðla upplýsingum

„Flestir miðlar eru ríkisreknir, eða eru að minnsta kosti reknir með fjármagni frá ríkinu og eru þar með háðir því. Það eru fáir miðlar sem geta kallað sjálfa sig sjálfstæða. Þeir fjalla aðallega um málefni þeirra sem eru andvígir ríkisstjórninni af því að ríkisreknir miðlar geta það ekki, þeir verða að vera hliðhollir Kremlin. Afar fáir miðlar reyna síðan að fjalla um sjónarmið beggja hliða, Ekkó Moskvu var einn af þeim miðlum.“

Hann segir útvarpsrásina nú reyna að beita öðrum leiðum til að koma upplýsingum á framfæri, til að mynda í gegnum miðilinn Youtube.

Hann kveðst þó ekki vita hversu lengi þeir geta haldið áfram með þeim hætti en yfirvöld hafa þegar reynt að takmarka notkun á Facebook með því að hægja á miðlinum í þeim tilgangi að minnka upplýsingaflæði þar.

„Hver veit hvað verður næst, kannski verður það Youtube eða Google, enginn getur spáð fyrir um það.“

Kona handtekin í kvöld er hún hugðist mótmæla innrásinni í …
Kona handtekin í kvöld er hún hugðist mótmæla innrásinni í miðborg Moskvu. AFP

Ekki allir hafi tíma til að rýna í upplýsingarnar

Aðspurður segir hann erfitt að leggja mat á hvaða fjölmiðla almenningur í Rússlandi horfir hvað mest til í leit að upplýsingum enda hefur stór hluti þjóðarinnar ekki einu sinni aðgang að interneti. 

„Margir búa við slæm lífskjör og eiga bara í erfiðleikum með að þrauka af daginn. Þau hafa ekki tíma til að rýna í allar þær upplýsingar sem birtast í fréttunum.

Þau fá fréttirnar á þann hátt sem er auðveldastur, sem er í gegnum sjónvarpið í gegnum ríkisreknu sjónvarpsstöðvarnar þar sem áróðurinn er.“

Þjóðernishyggja meira áberandi frá 2014

Að sögn Andrei hefur þjóðernishyggja orðið sífellt meira áberandi í fréttaflutningi frá árinu 2014, þegar Rússar tóku yfir Krímskaga. Samhliða því hefur áróður gegn Úkraínu einnig aukist.

„Þeir segja að Úkraínumenn séu í raun ekki alvöru þjóð. Þeir eru bara Rússar sem komust yfir landsvæði að gjöf og hafa í raun engin lagaleg réttindi til að gera það. Þetta er aðal hugmyndin að baki ríkis-áróðrinum og ástæðan fyrir því að þeir geta réttlætt innrásina. Núna er Rússland að endurheimta það sem það á rétt á. Úkraína var mistök.“

Hann segir megin hugmyndafræðina sem stjórnvöld reyna nú að koma á framfæri til almennings vera sú að Rússland sé enn stórveldi og þurfi að endurheimta það landssvæði sem var eitt sinn undir keisaraveldinu, þar á meðal svæði Eystrasaltsríkjanna.

Lögregla leitar á karlmanni í Moskvu í kvöld eftir mótmæli …
Lögregla leitar á karlmanni í Moskvu í kvöld eftir mótmæli í miðborginni. AFP

Bindur vonir við viðbrögð auðjöfra

Að sögn Andrei styður einungis um fjórðungur þjóðarinnar Pútín. Þá eru svipað margir sem eru andvígir honum en stærsti hluti landsmanna hefur þó ekki tíma í að velta stjórnmálum fyrir sér enda eiga þeir nóg í fangi með að koma mat á borðið.

Hann kveðst þó fullviss um að mótmæli almennings muni ekki koma til með að skila miklum árangri.

„Þau munu ekki ná að koma neinum breytingum í gegn, því miður. Frá því að innrásin hófst hafa verið mótmæli í öllum stærstu borgum Rússlands. Á fyrstu fimm dögunum voru sjö þúsund manns handteknir. Sjö þúsund manns. Nú horfa þau fram á afleiðingar þess á borð við fangelsisdóm.“

Andrei segir að eina vonin núna sé að rússneskir auðjöfrar, sem hafa nú þegar tapað stórum fjárhæðum vegna refsiaðgerða Vesturlanda, láti til sín taka. 

„Ef þeir stöðva ekki Pútín þá verða þeir fátækir.“

Undir smásjá fyrir að skipuleggja mótmæli

Andrei á fjölskyldu, vini og gamla samstarfsfélaga sem búa í Rússlandi og er því enn með töluverð tengsl við heimalandið sitt. Hann heimsótti Rússland síðast í maí árið 2021 en þarf nú að snúa aftur í maí.

Hann óttast þó um að lenda í vandræðum við landamærin þar sem að ríkisreknir fjölmiðlar í Rússlandi komust á snoðir um þátttöku hans í að skipuleggja mótmæli í ársbyrjun 2021 hérlendis eftir að pólitíski aðgerðarsinninn Alexei Navalní var handtekinn.

„Það komst til tals í einum spjallþætti að það hefðu verið mótmæli um allan heim, jafnvel í Reykjavík. Þá sýndu þeir mynd og sýndu mig sérstaklega, þar sem ég var skipuleggjandinn. Þeir sýndu prófílinn minn á Facebook og sögðu að ég væri að vinna fyrir bandaríska sendiráðið og fengi greitt fyrir það.“

Þá hafi hann verið sakaður um að ýta undir byltingu en Andrei hafði sjálfur minnst á að hann hefði sótt áfanga um borgaralega óhlýðni í færslu á Facebook og ætlaði að bjóða prófessornum sem kennir áfangann á mótmælin.

„Í Rússlandi er þetta nóg til að óttast um frelsi sitt því ég gæti verið handtekinn fyrir þetta.“

Óttastu að snúa aftur heim?

„Ég er að vega og meta möguleika mína og reyna að átta mig á hversu hættulegt það gæti verið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert