Lest eftir lest fullar af fólki á leið vestur

Lestir fara á 2-3 klst fresti frá Kænugarði í vesturátt …
Lestir fara á 2-3 klst fresti frá Kænugarði í vesturátt með fólk sem er að flýja stríðsátökin. Allar lestirnar eru pakkfullar og þarf fólk að standa í stigum til að komast með. Ljósmynd/Óskar Hallgrímsson

Þrátt fyrir áframhaldandi árásir Rússa í Úkraínu er ekki lengur sama ringulreiðin í höfuðborginni Kænugarði og andrúmsloftið allt orðið rólegra. Þetta segir Óskar Hallgrímsson ljósmyndari sem búsettur er í borginni, en hann ákvað ásamt eiginkonu sinni að vera um kyrrt í þrátt fyrir stríðsátökin. Hann segir áfram mjög mikið að gera á aðallestarstöðinni, þar sem lestir fari troðfullar af fólki á 2-3 klukkustunda fresti í vestur átt, en að rólegra sé yfir fólki en áður.

Óskar fór á lestarstöðina í gær til að skoða aðstæður og segir hann að engir fastir tímar séu á brottförum. Bæði sé það gert til að minnka að folk reyni að troða sér á ákveðnar tímasetningar, en líka til þess að erfiðara sé fyrir Rússa að vita nákvæmlega hvenær lestirnar séu á ferð.

„Lestirnar eru mjög pakkaðar og fólk stendur í stigum,“ segir hann. Fólk á öllum aldri fer í lestirnar, fjölskyldur með börn, eldra fólk og stakir einstaklingar á meðan aðrir verða eftir. Áfangastaðurinn er borgin Lviv í vesturhluta landsins og aðrar borgir í þeim hluta landsins. Þaðan halda svo margir áfram yfir til nágrannaríkja Úkraínu, en landamæri landa Evrópusambandsins og til dæmis Íslands hafa verið opnuð fyrir flóttafólk frá Úkraínu.

Framtíðin er óljós um þessar mundir fyrir stærstan hluta úkraínsku …
Framtíðin er óljós um þessar mundir fyrir stærstan hluta úkraínsku þjóðarinnar. Ljósmynd/Óskar Hallgrímsson

„Það er eins og línan hafi færst lengra í burtu“

Rétt við lestarteinana er að sögn Óskars svo gígur eftir árás Rússa í síðustu viku, en sprengingin tók meðal annars út kyndingarstöð sem notuð til að kynda upp hús í nágrenninu.

Ein ástæða þess að rólegra er yfir fólki núna að sögn Óskars er að það heyrist ekki jafn mikið af sprengingum og áður í Kænugarði. Þá séu þær sprengingar sem heyrist í mun fjær en fyrir nokkrum dögum. „Það er eins og línan hafi færst lengra í burtu,“ segir hann og bætir við að hann viti að enn sé hart barist í úthverfum og það sé svipað og ef barist væri í Kópavogi og Hafnarfirði fyrir íbúa miðborgar Reykjavíkur. Þó heyrist reglulega í orrustuþotum fljúga yfir borgina og segir hann stanslausan þyt frá þotunum, „en lítið um sprengingar.“

Hillur aftur að fyllast af matvörum

Í síðustu viku virtust vörur nokkuð að skornum skammti í verslunum að sögn Óskars. Hann segir að eftir ferðina á lestarstöðina hafi þau hins vegar fundið verslun sem virtist lokuð, meðal annars vegna þess að ein hlið verslunarinnar hefði orðið fyrir sprengingu. Verslunin var hins vegar opin og fullar hillur og því hafi þau náð að bæta aðeins á birgðir af ferskum matvælum eins og jógúrti og brauði. Segir hann að þau hafi þegar verið komin með talsvert af þurr- og dósamat og bætir kíminn við að líklega eigi þau nú um hálfsársbirgðir af hrísgrjónum.

Haldið af stað í vesturátt frá Kænugarði. Hvort stoppað verði …
Haldið af stað í vesturátt frá Kænugarði. Hvort stoppað verði í Lviv eða haldið áfram yfir til annarra Evrópulanda mun koma í ljós. Ljósmynd/Óskar Hallgrímsson

Óskar segir að þau hafi jafnframt litið inn í stórmarkaðinn í hverfinu þar sem hillur hafi tæmst í síðustu viku. Þar voru hillur aftur orðnar nokkuð fullar og segir hann ljóst að fólk hafi fyrstu dagana farið að hamstra mat. Þannig sé það hins vegar ekki í dag og því nái verslanirnar að fylla á og fá sendingar eftir þörfum.

Eru í fimm daga að taka út fyrir húsaleigu

Sett hefur á úttektarhámark á greiðslukort í hraðbönkum upp á 1.000 hryvnia, en það jafngildir um 4.300 íslenskum krónum að sögn Óskars. „Það er reyndar talsverður peningur hér og jafngildir um vikuinnkaupum.“  Segir hann að síðustu dagar hafi því farið í að safna upp peningum til að geta greitt húsaleiguna, en það kallar á að nota öll þau þrjú kort sem þau hafa til umráða í um fimm skipti hvert.

Segir enn sama baráttuvilja í landsmönnum

Undanfarna daga hafa verið harðir bardagar við borgirnar Maríupol og Mykolaiv við Svartahaf, í suðurhluta Úkraínu. Óskar segir að nú líti svo út að borgin Ódessa verði næst í röðinni, en að þar viti hann til þess að almennir borgarar hafi vígbúið borgina með að fylla sandpoka og komið upp vörnum á hverju götuhorni. Þá hafi almenningur einnig fengið dags þjálfun á skotvopn sem hafi verið úthlutað og búast megi við harðri baráttu þar.

Hann segist skynja að heilt yfir sé enn sami baráttuvilji í landsmönnum og í byrjun innrásarinnar. „Hann hefur ekki minnkað heldur aðeins styrkst við fréttir af árásum á borgara,“ segir hann og bætir við að aðgerðir Rússa hafi haft þveröfug áhrif en þeir hafi líklega ætlast til. Spurður hvernig þessi átök og stanslausar fréttir af stríðinu séu að fara með hann segist Óskar þó viðurkenna að þetta sé farið að hafa mikil áhrif á hann og taugarnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert