Umsátur um Maríupol

Yfirgefnar rústir á götum Maríupol eftir linnulausar árásir rússneska umsátursliðsins. …
Yfirgefnar rústir á götum Maríupol eftir linnulausar árásir rússneska umsátursliðsins. Engar fréttaljósmyndir berast frá borginni en borgarstjórn Maríupol sendi þessa mynd frá sér. Ljósmynd/Borgarstjórn Maíupol

Her Rússlands hefur staðið fyrir umsátri um stórar borgir í Úkraínu um helgina og hafa hundruð þúsunda almennra borgara orðið innlyksa. Meðal annars í hafnarborginni Maríupol í Suðaustur-Úkraínu, en borgin er Rússum hernaðarlega mikilvæg þar sem yfirráð myndu leyfa aðskilnaðarsinnum, sem studdir eru af Rússum í Austur-Úkraínu, að sameinast hermönnum á Krímskaga.

Tvisvar var boðað til vopnahlés í borginni um helgina til þess að gefa almennum borgurum tækifæri til að flýja en í bæði skiptin var rýmingu frestað. Íbúar búa nú við skelfilegar aðstæður þar sem matar- og vatnsbirgðir á svæðinu eru nánast uppurnar og hvorki er rennandi vatn né rafmagn í borginni.

Sameinuðu þjóðirnar greindu frá því í gær að yfir 1,5 milljónir manna hefðu flúið átökin og er um að ræða mesta flóttamannavanda Evrópu frá síðari heimsstyrjöld. Flestir hafa leitað skjóls í Póllandi, eða meira en milljón manns.

Leiðtogar ræða við Pútín

Ekki virðist neitt lát á sókn Rússa en í dag hefst þriðja lota friðarviðræðna rússnesku og úkraínsku sendinefndanna. Þá hafa ýmsir leiðtogar líkt og Naftali Bennett, forsætisráðherra Ísraels, Emmanuel Macron Frakklandsforseti og Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, rætt við Vladimír Pútín Rússlandsforseta til að komast að einhverri lausn.

Rússneskir embættismenn keppast nú við að takast á við áhrif refsiaðgerða vestrænna ríkja. Óttast er að svartur markaður sé í uppsiglingu en til að berjast gegn vöruhamstri hafa helstu smásalar ákveðið í gegnum viðskiptasamtök sín að takmarka magn nauðsynlegra matvæla sem einstaklingar geta keypt á hverjum tíma.

Um 4.600 manns voru handteknir í gær víða um Rússland vegna mótmæla gegn innrásinni. Alls hafa því um tíu þúsund mótmælendur verið handteknir í landinu síðan innrásin hófst fyrir ellefu dögum.

Stríðið og viðsjár í alþjóðamálum hafa kveikt umræðu um öryggis- og varnarmál hér á landi. Í gær vakti prófessor í stjórnmálafræði máls á því að huga þyrfti að fastri viðveru varnarliðs hér á landi á ný til þess að varnir landsins hefðu trúverðugan fælingarmátt.

Stjórnmálamenn sem Morgunblaðið ræddi við telja flestir að slíkt þurfi að gera í samráði við aðrar aðildarþjóðir Atlantshafsbandalagsins, en sérfræðingar í varnarmálum telja umræðuna ótímabæra.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert