Noregur hámarkar framleiðsluna

Olíuborpallar í Norðursjó.
Olíuborpallar í Norðursjó.

Noregur er næststærsti framleiðandi eldsneytis í Evrópu og í dag tilkynntu Norðmenn að allt yrði gert til að hámarka framleiðslugetuna til að gera Evrópu minna háða Rússum um eldsneyti.

Norska olíu- og orkumálaráðuneytið hefur ákveðið að breyta framleiðsluleyfum þriggja olíuborpalla, Oseberg, Troll og Heidrun, svo hægt sé að mæta þessari þörf og þeir geti sett jarðgasvinnslu í forgang fram yfir olíuvinnsluna.

20-25% eldsneytis Evrópu kemur frá Noregi

Aðgerðirnar munu ekki auka daglega eldsneytisframleiðslu Noregs svo miklu muni en munu halda eldsneytisútflutningi í hámarki. Í dag sér Noregur Evrópu fyrir 20-25% eldsneytis, meðan Rússar hafa séð álfunni fyrir 45-50%.

Frá innrás Rússa í Úkraínu hefur mikil áhersla verið lögð á að lágmarka þörf Evrópubúa fyrir eldsneyti frá Rússlandi og stefnt að því að minnka innflutninginn um 66%. Það eru þó takmörk fyrir því hversu mikið Norðmenn geta aukið framleiðsluna, en búist er við að um miðjan maí verði hægt að flytja fljótandi gas (LNG) frá Hammerfest í Noregi, en skemmdir urðu á framleiðslustöðinni þar vegna eldsvoða árið 2020.

Samkvæmt upplýsingum frá framleiðslufyrirtækinu Equinor yrði þá hægt að auka framleiðsluna umtalsvert. Oseberg-borpallurinn ætti að geta aukið framleiðsluna um 1 milljarð kúbikmetra fram að 30. september, en þá eru viðgerðir á pallinum áætlaðar. Heidrun-olíuborpallurinn er talinn geta aukið framleiðsluna um 0,4 milljónir rúmmetra á þessu ári, og Troll-olíupallurinn hefur nú leyfi til að auka framleiðsluna upp í 1 milljarð rúmmetra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert