Bandarísk herflugvél hrapaði í Noregi

Herþotan var af gerðinni Bell-Boeing V-22 Osprey.
Herþotan var af gerðinni Bell-Boeing V-22 Osprey. AFP

Bandarísk herflugvél með fjögurra manna áhöfn hrapaði í Norður-Noregi síðdegis í gær. Þotan tók þátt í heræfingum Atlantshafsbandalagsins (NATO) og var á leið til borgarinnar Bodø er hún hrapaði.

Á vef NRK er haft eftir Bent Arne Eilertsen, talsmanni lögreglu, að engin ummerki sjáist um að áhöfnin hafi lifað af. Allir um borð voru bandarískir ríkisborgarar.

Björgunarsveitir hafa enn ekki komist að flakinu þar sem veður er slæmt og svæðið afar erfitt yfirferðar en herflugvélin hrapaði í Gråtå-dalnum þar sem er þéttur skógur. 

Heræf­ing­in, sem kallast Cold Respon­se, hófst 14. mars og mun hún standa til 1. apríl. Alls taka fleiri en 30 þúsund her­menn þátt frá 27 ríkj­um auk full­trúa fjölda borg­ara­legra aðila. Æft er á landi, á sjó og í lofti.

mbl.is