Situr fyrir svörum fram á fimmtudag

Dómarinn Ketanji Brown Jackson situr fyrir svörum Dómsmálanráðs bandarísku öldungadeildarinnar …
Dómarinn Ketanji Brown Jackson situr fyrir svörum Dómsmálanráðs bandarísku öldungadeildarinnar í dag, vegna tilnefningar hennar til Hæstaréttar Bandaríkjanna. AFP/Saul Loeb

Búist er við að Ketanji Brown Jackson fái erfiðari spurningar í dag frá dómsmálanefnd bandarísku öldungardeildarinnar, en ferlið til að samþykkja hana sem nýjan hæstaréttardómara hófst í gær. 

Ef hún verður samþykkt á fimmtudag mun hún verða fyrsta svarta konan sem gegnir embætti hæstaréttardómara í Bandaríkjunum.

Jackson kynnti sig fyrir öldungadeildinni í gær, og þjóðinni, því sjónvarpað var beint frá atburðinum, en í dag er búist við að farið verði vel yfir feril hennar sem dómara og réttarheimspeki. Jackson er 51 árs og útskrifaðist úr lagadeild Harvard.

Búist er við að hún verði samþykkt sem hæstaréttardómari og taki þá við af Stephen Breyer, öðrum frjálslyndum dómara sem fer á eftirlaun í sumar.

Núverandi valdajafnvægi helst

Eftir pólitískum línum er skipting milli frjálslyndra og íhaldssamra dómara 6-3 íhaldsmönnum í vil og þótt Jackson verði samþykkt mun það ekki breyta því valdajafnvægi. Af þeim 115 sem setið hafa í réttinum í gegnum tíðina hafa 108 þeirra verið hvítir karlmenn.

Chuck Schumer, leiðtogi demókrata í öldungadeildarinni sagði í tilkynningu að hann væri fullviss að Jackson yrði samþykkt og að eftir spurningar vikunnar kæmi það í ljós að hún væri með hæfari einstaklingum nokkru sinni sem hefði verið tilnefnd til stöðu hæstaréttardómara.

Æviráðningar í Hæstarétti

Í skoðanakönnun Politico/Morning Consult í dag töldu 47% kjósenda að Jackson ætti að vera samþykkt til Hæstaréttar en 19% töldu voru á móti því.

Þekkt er að stöður hæstaréttardómara í Bandaríkjunum eru mjög pólitískar og skiptast demókratar og repúblikanar um að setja sitt fólk þegar sæti losna, sem gerist ekki nema þegar einhver ákveður að fara á eftirlaun eða hreinlega deyr.

Kosningabaráttan hafin fyrir nóvember

Talið er að repúblikanar muni ekki beita sér gegn tilnefningu Jackson, þar sem valdajafnvægið breytist ekki í Hæstarétti, og þeir sjá sér meiri hag í því að einbeita sér frekar að verðbólgunni, sem væri mál sem myndi frekar skila sér í atkvæðum í nóvember.

Einnig hafa þeir ekki atkvæði til að geta stoppað samþykkið eins og staðan er núna. Það er þó búist við að hér sé kærkomið tækifæri fyrir báða stjórnmálaflokkana að ná eyrum kjósenda með spurningum sínum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert