„Tvær dætur misstu í gær föður sinn“

Jaroslav ásamt vini sínum Júrí á góðri stundu áður en …
Jaroslav ásamt vini sínum Júrí á góðri stundu áður en stríðið braust út. Júrí féll á vígvellinum um helgina og lætur eftir sig tvær stúlkur sem nú eru munaðarlausar.

Sergei fékk á laugardaginn þær hræðilegu fréttir að góður vinur hans hefði fallið á víglínunni. Rússar hófu á sama tíma árás á ný á hafnarborgina Ódessu þar sem Jaroslav er búsettur og íbúð sem Karíne átti með dóttur sinni var eyðilögð í stórskotahríð í Karkív. Þetta er meðal þess sem þrír íbúar í Úkraínu upplifðu um helgina, en ljóst er að tónn þeirra gagnvart Rússum er farinn að þyngjast mikið, ekki síst eftir fréttir dagsins um dráp á óbreyttum borgurum í Bútsja.

Við höld­um áfram að heyra frá þeim Jaroslav í borg­inni Ódessa í suður­hluta lands­ins, Ser­gei í Lvív í vest­ur­hluta lands­ins og Kar­ine í borg­inni Karkív í aust­ur­hluta lands­ins, en þau deila með mbl.is upp­lif­un­um sín­um og greina frá því hvað efst er í huga al­mennra borg­ara eft­ir að stríð braust út í landi þeirra.

Sergei í Lvív

Þrítugasti og níundi dagur stríðsins. Í gær fékk ég þær fregnir að góður vinur minn hefði fallið á vígvellinum. Við höfðum í gegnum tíðina unnið að mörgum áhugaverðum tónlistarverkefnum saman. Ég á hreinlega engin orð til að lýsa því hvernig mér líður og ég trúi þessum fréttum ekki enn. Mig langar enn að trúa því að þetta séu bara einhver mistök... ég trúi þessu ekki. Tvær dætur misstu í gær föður sinn.

Þessi dagur er tilfinningalegt tómarúm og ég trúi því ekki að ég muni ekki hitta vin minn aftur. Eiginkona mín er miður sín vegna þessa og ég hef áhyggjur af ástandi hennar.

Mér skilst að flestir hafi nú þegar séð hræðilegar myndir og myndskeið frá borginni Bútsja. Ég vona að heimurinn opni loksins augun fyrir því sem er að gerast hérna og skilji að Rússar standa í þjóðarmorði á Úkraínubúum. Þeir komu hingað til að gjöreyða okkur. Í mínum huga er ekki til neitt land sem heitir Rússland. Ég vil ekki vita hvað er að gerast þar og ég mun ekki vera kurteis við Rússa sem ég mun hitta utanlands. Þeir munu þurfa að svara til saka fyrir þessa stríðsglæpi sína og ekki bara herinn.

Ég er því miður hræddur um að við munum horfa upp á enn frekari hrylling og stríðsglæpi af hálfu Rússa í framtíðinni.

Nú ætla ég að reyna að sofa eins mikið og ég get í nótt og reyna að komast hjá því að hugsa um þessa martröð sem er í gangi. Ég á ekki til nægjanlega sterk blótsyrði til að lýsa því sem mig langar að segja um þessi ómenni.

Jaroslav í Ódessu

Ég vaknaði við fyrstu sprenginguna, en svo heyrðust þrjár eða fjórar til viðbótar. Þetta var sama tilfinningin og fyrsta daginn.

Þegar ég mætti á vaktina í dag var allt tilbúið fyrir útkeyrslu og framundan var langur dagur fram og til baka um borgina. Þegar ég kom að útjaðri svæðisins sem við aðstoðum sá ég sjón sem ég hef ekki séð áður í lífinu. Stór dökkur reykjamökkur reis upp og náði upp í óveðursskýin fyrir ofan. Leiðin mín var nokkuð nálægt sprengjustaðnum, en vindáttin varð til þess að ég slapp við að þurfa að fara í gegnum reykinn.

Dökkur reykur stígur upp í hafnarborginni Ódessa við Svartahaf eftir …
Dökkur reykur stígur upp í hafnarborginni Ódessa við Svartahaf eftir árásir Rússa um helgina.

 

Andrúmsloftið meðal íbúa borgarinnar er nokkuð öðruvísi frá afslöppun gærdagsins. Mun fleiri bílar nálægt bensínstöðvum og færri á ferðinni á götunum. Þetta er eins og fyrstu tvo dagana. Það ríkir hins vegar ekki ótti meðal íbúa, heldur virðir fólk hvort annað á götunum, í stórmarkaðinum og við skoðunarstöðvar.

Vöruúrvalið í stórmörkuðunum er annars farið á minna á gamla tölvuleiki og mikið um sömu vörurnar. Það er eins og einhver hafi bara ýtt á „ctrl+c“ og „ctrl+v“ í sífellu. Auðvitað er vöruúrvalið orðið minna en áður, en við erum áfram með helstu nauðsynjar. 

Karíne í Karkív

Þið fyrirgefið en ég get ekki hugsað um neitt annað en þessi hræðilegu glæpi sem Rússar frömdu í nágrenni Kænugarðs, þá sérstaklega í Bútsja. Borgin var frelsuð af hermönnum Úkraínu og þá kom strax í ljós afleiðing hernáms Rússa.

Grimmdarverk rússneskra hermanna í Bútsja eru á sama stað og ómanneskjulegar aðferðir þýskra fasista í seinni heimstyrjöldinni. Drepa mikinn fjölda óvopnaðra borgara, stela, ræna og nauðga og líkin látin liggja á miðjum götum. Þetta er hræðilegt.

Það er svo næstum því enn hræðilegra er áróður Rússa, en þeir kenna úkraínskum þjóðernissinnum um. Rússar ljúga til að reyna að verja eigin þjóð heima fyrir.

Það er áfram ráðist á Karkív. Eldflaugar hittu fjölbýlishús þar sem við og dóttir okkar eigum saman íbúð. Ég bjó þar frá 1983 til 1988, en íbúðina erfði ég frá móður minni þegar hún lést. Dóttir okkar endurgerði hana svo nýlega og ætlaði að búa þar í kjölfarið.

Maðurinn minn ákvað að fara að skoða ástandið á húsinu, en þegar hann var þar hófust stórskotaliðsárásir á ný og Rússar skutu á fleiri hús í hverfinu. Maðurinn minn faldi sig á meðan á árásunum stóð en kom svo heim. Á leiðinni heim keyrði hann framhjá húsum sem höfðu verið óskemmd klukkustund áður, en voru nú skemmd eftir sprengjuregnið. Rússar!?!

Hvernig er lengur hægt að treysta Rússum og hvernig er hægt að vera vinur þeirra sem níðast á öðrum? Þessir Rússar eru ekki lengur fólk heldur afkomendur djöfulsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert