Rússneska útgáfan af Youtube liggur niðri

Rússneska myndbandavefsíðan Rutube hefur nú legið niðri í tvo daga.
Rússneska myndbandavefsíðan Rutube hefur nú legið niðri í tvo daga. Mynd/Skjáskot af rutube.ru.

Rutube, myndbandavefur Rússa, hefur legið niðri í tvo daga eftir að tölvuþrjótar gerðu netárás á vefinn nokkrum klukkustundum áður en þar átti að streyma frá skrúðgöngu í tilefni Sigurdagsins í Moskvu í gær.

„Við höfum í raun orðið fyrir stærstu netárás í sögu Rutube. Endurheimt vefsins mun taka lengri tíma en verkfræðingar héldu,“ sögðu talsmenn miðilsins í skilaboðum á Telegram í dag.

„Sjónvarpsmiðlar og yfirvöld eru að ljúga“

Sem fyrr sagði gerðu tölvuþrjótar netárás á vefinn í gærmorgun áður en skrúðgangna, sem haldin er árlega í Mosvku í tilefni Sigurdagsins, átti að hefjast, rúmum tveimur mánuðum eftir að Rússar réðust í það sem þeir kalla „sérstaka hernaðaraðgerð“ í Úkraínu.

„Það er greinilegt að einhver vildi koma í veg fyrir að streymt yrði frá skrúðgöngunni og flugeldasýningunni á Rutube,“ segir í skilaboðum talsmanna fyrirtækisins.

Úkraínskir miðlar birtu í gær myndir sem eiga að sýna að netárásir hafi einnig verið gerðar á rússnesku sjónvarpsstöðvarnar MTS, NTV-Plus, Rostelcom og Winx. Hinir meintu tölvuþrjótar létu eftirfarandi skilaboð fylgja myndunum: „Blóð þúsunda Úkraínumanna og barna er á þínum höndum. Sjónvarpsmiðlar og yfirvöld eru að ljúga. Segið nei við stríði.“

Tveir blaðamenn fordæmdu hernaðaraðgerðir Rússa í Úkraínu einnig með skrifum sínum á lenta.ru, fréttavef Kremlverja í gær og sögðu aðgerðirnar „blóðugar og óskiljanlegar“ en texti þeirra var fljótt tekinn niður.

„Við erum núna í leit að nýrri vinnu, lögfræðiaðstoð og mögulega pólitísku hæli,“ skrifuðu blaðamennirnir Egor Polyakov og Alexandra Miroshnikova.

mbl.is