Lést eftir neikvæð áhrif af samfélagsmiðlum

Russell vistaði hjá sér, deildi eða lækaði ríflega tvö þúsund …
Russell vistaði hjá sér, deildi eða lækaði ríflega tvö þúsund færslur á Instagram er tengdust sjálfsskaða, þunglyndi eða sjálfsvígum, í aðdraganda andlátsins. AFP

Molly Russell, fjórtán ára stúlka í Bretlandi sem lést í nóvember 2017 af völdum sjálfsskaða, þjáðist af alvarlegu þunglyndi sem dánardómstjóri telur að rekja megi til samfélagsmiðlanotkunar. 

Ekki var hægt að fullyrða að um sjálfsvíg hefði verið að ræða.

Réttarhöld vegna andláts Russell, sem staðið hafa yfir síðustu daga, hafa varpað neikvæðu ljósi á samfélagsmiðlageirann.

Rannsókn leiddi í ljós að í aðdraganda andlátsins hafði Russell vistað hjá sér, deilt eða lækað ríflega tvö þúsund færslur á Instagram sem tengdust sjálfsskaða, þunglyndi eða sjálfsvígum. 

Andrew Walker dánardómstjóri segir að færslurnar, sem voru afar myndrænar, hafi normalíserað ástand hennar.

Stúlkan væri á lífi ef efnið væri „öruggt“

Faðir Russell segir háttsettan stjórnanda hjá Meta, móðurfyrirtækis Facebook og Instagram, hafa fullyrt að það efni sem algrími miðlanna birti dóttur hans hafi verið öruggt og ekki brotið gegn stefnu Meta.

Faðirinn var með öllu ósammála og telur víst að dóttir hans væri enn á lífi ef færslurnar hefðu verið öruggar, eins og haldið var fram.

„Það er tími til kominn að þessi eitraða fyrirtækjamenning sem liggur í hjarta stærsta samfélagsmiðlavettvangs heims breytist,“ sagði hann.

Baðst afsökunar

Elizabeth Lagone, yfirmaður heilsu og vellíðunar hjá Meta, baðst afsökunar eftir að henni var birt myndefni, sem á að hafa brotið gegn stefnu Meta, sem hafði birst á Instagram-reikningi Russell.

„Hugur okkar er hjá fjölskyldu Russell,“ sagði í yfirlýsingu Meta í kjölfar réttarhaldanna þar sem m.a. kom fram að fyrirtækið ætlaði að halda áfram vinnu við breytingar á miðlunum með hliðsjón af öryggi unglinga.

mbl.is